Gróður og framvinda í Skaftafelli á tímum loftslagsbreytinga og útbreiðslu framandi tegunda

Tímamörk

Langtímaverkefni sem hófst árið 1979.

Samstarfsaðilar

Vatnajökulsþjóðgarður.

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Fylgst er með gróðri í Skaftafelli og framvindu hans. Upphaflega markmiðið var að fylgjast með áhrifum beitarfriðunar á gróðurframvindu í þjóðgarðinum en síðar bættist við að kanna áhrif hlýnandi veðurfars á framvindu gróðurs og líffræðilega fjölbreytni og áhrif framandi tegunda. Auk vísindalegs og forspárgildis fyrir önnur svæði munu niðurstöður verkefnisins koma að notum við fræðslu og umsjón þjóðgarðsins.

Árið 1981 var lokið við að koma upp og mæla gróður í föstum reitum í mismunandi landgerðum í þjóðgarðinum, í 100–700 m h.y.s. Reitirnir voru endurmældir á árunum 1985–1987. Árið 2004 var ástand reitanna kannað og staðsetning þeirra skráð með gps-tæki og 2012 var farið aftur til að leita uppi og merkja reiti sem náðist að hnita í fyrra skiptið. Ljósmyndir voru teknar af reitunum.

Árið 2018 var ákveðið að halda áfram rannsóknum á gróðri og framvindu hans í Skaftafelli. Notaðar voru sömu aðferðir og áður, en að auki voru gerðar ýmsar viðbótarmælingar til þess að fá nákvæmari upplýsingar um gróður og umhverfi, í samræmi við aðferðir sem þróaðar hafa verið í tengslum við vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. ritið Vistgerðir á Íslandi. Það gefur möguleika á að bera gögnin frá Skaftafelli saman við gögn frá öðrum svæðum landsins og flokka land innan þjóðgarðsins í vistgerðir.

Niðurstöður

Borgþór Magnússon, Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson, Rannveig Thoroddsen, Járngerður Grétarsdóttir, Ingibjörg Eyþórsdóttir og Eyþór Einarsson† 2022. Gróðurbreytingar í Skaftafelli í kjölfar friðunar og hlýnandi veðurfars. Unnið í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-22007. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Rannveig Thoroddsen og Borgþór Magnússon 2019. Gróður og framvinda í Skaftafelli á tímum loftslagsbreytinga og útbreiðslu framandi tegunda. Í María Harðardóttir, ritstj. Ársskýrsla 2018, bls. 31–33. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sigurður H. Magnússon 2015. Gróðurframvinda í Skaftafelli. Erindi flutt á Hrafnaþingi 18. nóvember 2015.

Tengiliður

Rannveig Thoroddsen, plöntuvistfræðingur.