Rjúpa (Lagopus muta)

Útbreiðsla

Rjúpa (Lagopus muta) er hænsnafugl (Galliformes) af undirætt orrafugla (Tetraoninae). Varplönd hennar eru á arktískum svæðum hringinn í kringum pólinn. Reyndar finnast einangraðir rjúpnastofnar í fjöllum sunnar í álfum, strandaglópar frá ísöld, til dæmis í Alpafjöllum og Pírennafjöllum í Evrópu og háfjöllum eyjarinnar Honshu í Japan svo einhver svæði séu nefnd. Út frá skyldleika hefur rjúpum verið skipt í tvo meginhópa, annars vegar er svokallaður rupestris-hópur sem byggir Norður-Ameríku og Síberíu og hins vegar muta-hópurinn sem byggir Evrópu. Íslenska rjúpan tilheyrir rupestris-hópnum. Það voru rjúpur frá Grænlandi sem námu hér land við lok ísaldar fyrir um 10.000 árum síðan og finnast grænlenskar rjúpur hér endrum og eins.

Á Íslandi er rjúpa útbreiddur og algengur varpfugl. Hún er staðfugl en ferðast innanlands haust og vor og oft landshorna á milli. Mikilvægustu varplönd hennar eru móar af ýmsum gerðum.

Annað nafn rjúpunnar er fjallrjúpa, sem stundum er notað til aðgreiningar frá bergrjúpu (Lagopus leucurus) og dalrjúpu (Lagopus lagopus).

Stofnfjöldi

Stofnstærð rjúpunnar er mjög breytileg, bæði innan árs og á milli ára og tímaskeiða. Í lok sumars er rjúpnastofninn að jafnaði þrisvar til fjórum sinnum stærri en um vorið. Breytileiki í stofnstærð á milli ára er mun meiri en innan árs og stofninn rís og hnígur með reglubundnu millibili. Um 10–12 ár voru á milli hámarksára fyrir 2003 en síðan hafa stofnbreytingar verið örari og um 5 ár liðið á milli hámarka. Þetta má glöggt sjá á stofnvísitölum fyrir Norðausturland 1981–2020 á línuritinu hér fyrir neðan.

Rjúpnatalningar á Norðausturlandi – smellið á tvíátta ör neðst í hægra horni til að stækka grafið

Sjá nánar Vöktun rjúpnastofnsins

Á einstökum rjúpnatalningasvæðum hefur munur á hámarks- og lágmarksárum verið allt upp í 25-faldur. Í bestu rjúpnaárum telur hauststofn rjúpunnar yfir milljón einstaklinga en innan við tvö hundruð þúsund fugla í þeim lökustu. Einnig hefur verið munur á rjúpnafjölda á milli tímabila. Á fyrri hluta 20. aldar var meira af rjúpu en verið hefur síðustu áratugi og þá taldi rjúpnastofninn 3–5 milljónir fugla í hámarksárum. Vegna langtímafækkunar í stofninum hefur rjúpan verið skilgreind sem tegund í yfirvofandi hættu á válista fugla. Friðun rjúpunnar 2003 og 2004 var sett til að sporna gegn hnignun stofnsins. Samfelldar talningar á Kvískerjum í Öræfum frá árinu 1963 gefa góða mynd af fækkun rjúpunnar.

Stofnstærð rjúpu við Kvísker – smellið á tvíátta ör neðst í hægra horni til að stækka grafið

Sjá nánar Vöktun rjúpnastofnsins

Stofnsveifla rjúpunnar er náttúrulegt fyrirbæri og margir telja að sveiflurnar séu knúnar áfram af rás atburða innan fæðuvefsins og helgist af samskiptum grasbítsins og plantnanna sem hann bítur eða rándýra eða sóttkveikja sem á hann herja. Varðandi rjúpuna þá er vitað að fálki spilar þar stóra rullu en einnig mögulega sníkjudýr líkt og hníslar (Eimeria rjupa og Eimeria muta) sem valda hníslasótt, alvarlegum iðrasjúkdómi. Fálki er sérhæfður afræningi á rjúpu, fylgir henni allt árið og stofnbreytingar tegundanna eru tengdar en með töf þannig að fálkinn er í hámarki 2–3 árum á eftir hámarki í stærð rjúpnastofnsins. Tíðni hníslasýkinga er tengd stofnstærð rjúpu en með töf og smittíðnin er mest um einu og hálfu ári á eftir hámarki í stofnstærð rjúpu.

Stofnvísitölur fálka og rjúpu á Norðausturlandi – smellið á tvíátta ör neðst í hægra horni til að stækka grafið

Stofnvísitölur rjúpu og fálka á Norðausturlandi – Frumgögn (.xslx)

Sjá ítarlegri umfjöllun um vöktun rjúpnastofnsins.

Lífshættir

Rjúpa er meðalstór fugl, kubbslega vaxin, með stuttan háls og fætur. Karlfuglinn eða karrinn er nokkru stærri og þyngri en kvenfuglinn. Á haustin vega karrar um 530 g en kvenfuglar 480 g. Litur rjúpunnar er breytilegur eftir árstíma og búningaskiptin tíð miðað við flesta aðra fugla en hún skiptir um klæði þrisvar sinnum á ári; sumarbúningurinn er brúnn, haustbúningurinn er gráleitur og vetrarbúningurinn er hvítur. Flestir aðrir fuglar fella fjaðrir einu sinni á ári. Fjaðraskipti rjúpunnar taka til bolfiðurs en hvítar flugfjaðrir og svartar stélfjaðrir eru felldar aðeins einu sinni á ári. Búningar rjúpunnar eru feluklæði og hjálpa henni að leynast fyrir fjendum sínum. Aðeins á vorin bregður karrinn frá þeim vana að stunda feluleik en hann notar hvít vetrarklæðin sem sitt brúðgumaskart. Hann er hvítur fram í lok maí, löngu eftir að snjó hefur tekið upp, og gerir ekkert til að leynast heldur þvert á móti. Kvenfuglinn fylgir hins vegar landinu og skiptir yfir í brúnan vor- og sumarbúning þegar snjóa leysir. Á þessum tíma árs lifir fálkinn nær einvörðungu á rjúpu og stór hluti af veiðinni eru karrar.

Hvað ræður því að svona háttalag líkt og karrinn sýnir, sem augljóslega dregur úr lífslíkum, nær að þróast? Valkraftarnir sem hér eru að verki er „smekkur“ kvenfuglsins við makaval en rjúpan virðist nota þetta atferli karranna ómeðvitað sem einhverskonar mælistiku á gæði eða hæfni þeirra. Aðeins þeir karrar sem á þennan máta storka forlögunum og lifa það af, falla í kramið hjá kvenfuglunum og fá tækifæri til að æxlast. Þetta er dæmi um það sem enski náttúrufræðingurinn Charles Darwin (1809–1882) kallaði kynval (e. sexual selection).

Fætur og tær rjúpunnar eru fiðruð. Það fyrirkomulag er aðlögun að lífi á norðurslóðum, það bæði einangrar gegn kulda og auðveldar gang í lausamjöll.

Rjúpur verða kynþroska ársgamlar, frjósemi er mikil og hver kvenfugl verpir að jafnaði 11–12 eggjum. Afföll eru hins vegar hröð og hjá fyrsta árs fuglum eru þau 80–90% og 40–80% hjá eldri fuglum. Elsta merkta rjúpan endurheimt var 10 ára þegar hún drapst og því sannanlega öldungur.

Rjúpan er jurtaæta og étur laufblöð, blóm, ber, fræ, æxlilauka, rekla, brum og sprota. Þýðingarmikil haust- og vetrarfæða eru sprotar, reklar og brum ýmissa smárunna, svo sem grasvíðis (Salix herbacea), fjallavíðis (Salix arctica) og fjalldrapa (Betula nana). Miklar breytingar á meltingarkerfi rjúpu eiga sér stað innan árs sem endurspegla breytingar í meltanleika fæðunnar en haust- og vetrarfæðan er grófust og tormeltust. Þannig stækkar meltingarkerfið á haustin, er stærst yfir veturinn, minnkar á vorin og er minnst yfir sumarið, og síðan endurtekur sagan sig.

Rjúpur eru félagslyndar utan varptíma og fara oft um í hópum en í lok vetrar verða breytingar á háttalagi karranna. Í apríl eru þeir stakir og helga sér landskika sem þeir verja fyrir öðrum körrum. Þeir auglýsa eignarétt sinn með því að sitja á stöðum sem bera hátt og með því að taka reglubundnar rokur þar sem þeir fljúga upp og láta sig síðan svífa niður á útbreiddum vængjum og gefa frá sér há og endurtekin rophljóð. Þetta er söngur rjúpunnar, eitt af einkennishljóðum íslenskra heiðalanda og á þessum árstíma er karrinn kallaður ropkarri. Mestur er atgangurinn í ljósaskiptum kvölds og morgna. Á biðilsbuxum reisir karrinn rauða kamba og breiðir úr svörtu stéli. Flestir karrar parast aðeins einum kvenfugli, sumir ná reyndar ekki að heilla til sín neinn kvenfugl á meðan aðrir stunda fjölkvæni (e. polygamy) og eru í slagtogi með tveimur, þremur eða jafnvel fjórum kvenfuglum. Árangurinn endurspeglar hversu álitlegur karrinn er í augum kvenfuglsins og þar virðist skipta máli aldur karrans, en fullorðnir karrar hafa meira aðdráttarafl en ársgamlir, og einnig hversu hvítur búningurinn er, stærðin á kömbunum og hversu skærrauðir þeir eru. Kvenfuglarnir hefja varp í síðari hluta maí og þá dofnar óðalsatferlið og er afstaðið í fyrri hluta júní. Kvenfuglinn sér einn um að unga út eggjum og um uppeldi unga. Álegutíminn er um 3 vikur og ungarnir eru á eigin vegum um 8 vikna gamlir.

Rjúpnaveiðar

Rjúpa er eftirsótt veiðibráð og hefur verið nýtt allt frá landnámi. Fyrst til sjálfsþurftar, til tekjuöflunar frá miðri 19. öld, en síðustu ár eingöngu til sportveiða. Öll viðskipti með rjúpur og rjúpnaafurðir hafa verið bönnuð frá 2005. Upplýsingar eru til um rjúpnaveiði hjá Umhverfisstofnun en veiðimenn hafa skilað inn skýrslum til stofnunarinnar frá 1995, mesti afli á þessum tíma var 1997 eða 166 þúsund fuglar.

Mun meira var veitt sum ár á fyrri hluta 20. aldar og til dæmis voru um milljón rjúpur fluttar úr landi á árunum 1924–1927 eða um 250 þúsund fuglar á ári. Rjúpnaveiðar eru hluti af menningu þjóðarinnar, bæði veiðin sem slík og ekki síður meðhöndlun og neysla aflans. Fyrir marga er rjúpnasteik og ilmur tengdur slíkri matreiðslu ómissandi hluti jólahátíðarinnar.

Útflutningur, sala og veiði – smellið á tvíátta ör neðst í hægra horni til að stækka grafið

Útflutningur, sala og veiði – Frumgögn (.xslx)

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT NT LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 4,2 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 

Rjúpnastofninn sveiflast með reglubundnum hætti en dregið hefur úr hámarki sveiflnanna á undanförnum áratugum. Tímaraðagreining sýnir neikvæða leitni  sem nemur liðlega 3% á ári og rétt tæplega 30% á 10 árum (Ólafur K. Nielsen o.fl. 2004, Ólafur K. Nielsen, óbirt). Af þessu sökum er rjúpan flokkuð sem tegund í yfirvofandi hættu (NT).

Rjúpa var ekki á válista árið 2000 en var flokkuð af Náttúrufræðistofnun Íslands sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) árið 2004 (Ólafur K. Nielsen o.fl. 2004).

Viðmið IUCN

Stofn er talinn hafa minnkað um 20-25% á tímabili sem nemur þremur síðustu kynslóðum.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Rjúpa var ekki á válista.

Global position

Rjúpu hefur fækkað í Evrópu og er hún þar á válista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT; BirdLife International 2015).

Verndun

Rjúpa er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra birtir árlega reglugerð um rjúpnaveiðar sem að jafnaði eru leyfðar í nokkra daga að hausti.

Válisti

IBA viðmið – IBA criteria:

Engin.

Töflur

Reiknaður fjöldi rjúpna sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Lagopus muta within important bird areas with >1% of the Icelandic population*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Borgarfjörður – Löngufjörur FG-V_10 B 901 2016 1,5  
Laxárdalsheiði VOT-V_3 B 884 2016 1,5  
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 670 2016 1,1  
Skagi VOT-N_5 B 896 2016 1,5  
Melrakkaslétta FG-N_4 B 2.532 2016 4,3  
Úthérað VOT-A_3 B 690 2016 1,2  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 7.305 2016 12,4  
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 1.731 2016 2,9  
Alls–Total     15.609   26,5  
*Byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn. – unpublished data.

Myndir

Heimildir

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016]

Ólafur K. Nielsen, Jenný Brynjarsdóttir og Kjartan Magnússon 2004. Vöktun rjúpnastofnsins 1999–2003. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 47. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_47.pdf

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf

Author

Ólafur Karl Nielsen mars 2016, Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018, Ólafur Karl Nielsen janúar 2021.

Biota

English Summary

The Lagopus muta in Iceland is estimated 59,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 27% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.

Icelandic Red list 2018: Near threatened (NT), the same as last assessment in 2004.