Mat spendýra á válista

Válistar eru opinberar skrár yfir tegundir lífvera  sem eiga undir högg að sækja eða eru í hættu í náttúrunni og er ein af meginstoðum náttúruverndar í heiminum. Allar tegundir eru flokkaðar eftir alþjóðlega viðurkenndu kerfi Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN). Markmið flokkunar er hættumat þ.e. reynt er að segja fyrir um líkur á því að tegund kunni að deyja út. Tegundir eru bæði metnar á heimsvísu og eins á svæðisvísu og getur þá matið náð til einstakra landa, staðbundinna stofna eða undirtegunda.

Válistamat

Í stuttu máli er válistamat miðað við fjóra höfuðþætti: (1) hversu algeng tegundin er, (2) útbreiðslumynstur, þ.e. hvort tegundin er mjög staðbundin eða dreifð, (3) stofnbreytingar á tilgreindu tímabili sem tekur mið af kynslóðalengd og (4) tölfræðilegri spá um stofnbreytingar í framtíðinni. Á svæðisbundnum válistum er auk þess tekið tilliti til þess hvort um einangraða stofna er að ræða og líkur metnar á landnámi út frá lífsháttum tegundar.

Tegundir sem eru metnar

Við undirbúning válista yfir íslensk spendýr var fyrst unnin skrá yfir öll spendýr sem vitað er til að hafi lifað í íslenskri náttúru, hvort sem þau hafa verið  flutt inn, viljandi eða óviljandi, t.d. með varningi sem fluttur er til landsins, eða borist hingað af náttúrulegum orsökum. Ekki er fjallað um húsdýr eða dýr sem hafa verið flutt inn til ræktunar, án þess að þau slyppu úr haldi. Til skoðunar voru alls 52 spendýrategundir, langflestar eru hvalir (23 tegundir) og sex tegundir sela. Flestar tegundir landspendýra eru innfluttar, ýmist viljandi eins og hreindýr (Rangifer tarandus) eða óviljandi eins og brúnrottur (Rattus norvegicus). Þessar tvær tegundir, ásamt fleiri tegundum, lenda í flokknum „á ekki við" (NA) og eru ekki metnar á íslenska válistanum samkvæmt válistaviðmiðum IUCN. Þar eru tegundir sem fluttar hafa verið inn af mönnum yfirleitt ekki metnar á svæðisvísu, nema þá að það hafi gerst fyrir landafundina miklu upp úr 1500. Samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013, eru tegundir „sem geta lifað af og fjölgað sér, sem menn hafa flutt vísvitandi eða óvitandi út fyrir sitt náttúrulega forna eða núverandi útbreiðslusvæði eftir árið 1750“, skilgreindar sem framandi. Meðal annarra tegunda sem skilgreiningar fyrir válista eiga ekki við eru flækingar eða sjaldgæfir gestir sem komast hingað með ýmsu móti. Þar á meðal eru leðurblökur sem villst hafa hingað til lands, ýmist með sterkum vindum eða með varningi, hvítabirnir (Ursus maritimus) og rostungar (Odobenus rosmarus). Sama gildir um þvottabirni (Procyon lotor), eins og þann sem felldur var í Ósum á Reykjanesskaga vorið 2018. Aðeins ein tegund landspendýra hefur borist til Íslands af eigin rammleik og tímgast hér en það er refur (Vulpex lagopus). Refir hafa verið á Íslandi í a.m.k. 3.500 ár. Bæði hagamýs (Apodemus sylvaticus) og húsamýs (Mus musculus) komu til landsins með fyrstu mönnum fyrir meira en þúsund árum og eru þær meðal þeirra tegunda sem metnar voru. 

Að gefnum ofangreindum forsendum var lagt mat á 20 tegundir spendýra samkvæmt viðmiðum IUCN. Tvær tegundir eru útdauðar á svæðinu (RE), ein tegund í bráðri hættu (CR), ein í hættu (EN) og tvær er í nokkurri hættu (VU). Tvær tegundir gætu mögulega lent í hættuflokki en ekki eru til nægileg gögn til að hægt sé að leggja mat á stöðu þeirra (DD). Tólf tegundir eru ekki í hættu (LC) samkvæmt viðmiðum IUCN.

Tegundir 30 fargesta, flækinga og framandi tegunda (innfluttar eftir 1750) voru ekki metnar (NA) en þó skal samkvæmt viðmiðum IUCN geta þeirra flækinga sem eru á heimsválista, óháð stöðu þeirra hér á landi. Þrjár tegundir voru í þeim flokki: blöðruselur, hvítabjörn og hreindýr.

Útdauð (EX)

Engin tegund.

Útdauð í náttúrunni (EW)

Engin tegund.

Útdauð á Íslandi (RE)

Tvær tegundir: rostungur og sandlægja.

Í bráðri hættu (CR)

Ein tegund: sléttbakur.

Í hættu (EN)

Ein tegund: landselur.

Í nokkurri hættu (VU)

Tvær tegundir: útselur og steypireyður.

Í yfirvofandi hættu (NT)

Engin tegund.

Gögn vantar (DD)

Tvær tegundir: andarnefja og búrhvalur

Hvers vegna lenda tegundir á válista?

Helstu ástæður þess að ofangreindar tegundir spendýra lenda á válista eru annars vegar mjög lítill stofn með hæga viðkomu (steypireyður), mjög lítill stofn með neikvæða stofnþróun (sléttbakur) og neikvæð stofnþróun (landselur og útselur).