Jarðfræðisöfn

Hlutfallslega skipting eintaka eftir safndeildum

Hlutfallsleg skipting eintaka eftir safndeildum

Jarðfræðisöfn Náttúrufræðistofnunar Íslands skiptast í steinasafn, steingervingasafn og borkjarnasafn. Steina- og steingervingasöfnin hafa að geyma um 37.700 sýni og eru þau varðveitt í starfsstöð stofnunarinnar í Garðabæ. Borkjarnasafnið er hins vegar varðveitt á Breiðdalsvík og geymir það um 37.000 metra af borkjörnum.

Eintök úr söfnunum eru lánuð tímabundið til rannsókna eða sýninga samkvæmt reglum Náttúrufræðistofnunar Íslands um gripalán.

Steindir og berg

Steinasafninu er ætlað að vera viðmiðunarsafn allra þekktra íslenskra steinda- og bergtegunda úr mismunandi jarðmyndunum. Við lok árs 2020 hafði safnið að geyma tæplega 28.900 sýni, þar af eru tæplega 6.500 steindasýni og um 22.400 bergsýni. Þar er einnig að finna þær steinategundir sem notaðar hafa verið í þágu iðnaðar hér á landi eða fundist hafa sem fornleifar. Slíkt steinasafn er undirstaða flestra rannsókna á íslenskum steintegundum. Það er einnig forsenda þess að hægt sé að útvega sýni til sýninga eða kennslu með stuttum fyrirvara.

Steinasafnið er að verulegu leyti byggt upp af starfsmönnum stofnunarinnar. Töluvert hefur einnig borist af steinum frá opinberum stofnunum, einkum Háskóla Íslands. Þá hafa stórar gjafir komið frá einkaaðilum. Erlend steinda- og bergsýni hafa flest fengist í skiptum fyrir íslensk sýni eða þau hafa verið keypt. Við uppröðun og greiningu steinda er stuðst við flokkunarkerfi Strunz og Nickel en við uppröðun bergtegunda er höfð hliðsjón af kerfi Trögers, Spezielle Petrographie der Eruptivgesteine: Ein Nomenklatur-Kompendium frá 1935.

Í náttúrugripasöfnum þar sem rannsóknir og upplýsingamiðlun fer fram eru steinda- og bergtegundasöfn, og sum önnur sérsöfn, geymd í sérsmíðuðum steinahirslum sem eru vel aðgengilegar viðkomandi sérfræðingum. Önnur sérsöfn sem sjaldnar er gengið í eru geymd í kössum.

Tilvist steinasafnsins auðveldar rannsóknir á einstökum tegundum. Stundum er steinasafn forsenda þess að hægt sé að ráðast í ákveðnar rannsóknir vegna þess að nægilega góð sýni eru ekki lengur aðgengileg úti í náttúrunni eða verða ekki fengin án verulegs aukakostnaðar. Á ári hverju eru nokkrir tugir sýna lánaðir til rannsókna eða á sérsýningar.

Steinasafnið er skráð í gagnagrunn jarðfræðisviðs Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Steindin cavansít í berg- og steindasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Mynd: Kristján Jónasson

Kavansít úr steindasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Steingervingasafn

Steingervingasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur að geyma steingervinga frá velflestum þekktum fundarstöðum á landinu. Þar er einnig að finna erlenda steingervinga. Nokkrir þeirra komu úr skólasafni Menntaskólans í Reykjavík, aðrir hafa verið keyptir til safnsins í fræðsluskyni og þá hefur safninu áskotnast gripi í skiptum við erlend söfn og sem gjafir. Sérstök safndeild, „Originalar“, geymir íslenska steingervinga sem myndir hafa birst af og fjallað hefur verið um á prenti. Þá er þar tegundasafn blaða og aldina erlendra trjátegunda, sem í dag lifa á suðlægum slóðum en uxu á Íslandi á míósen- og plíósentíma eða fyrir allt að 15 milljónum ára.

Steingervingasafnið er skráð í gagnagrunn jarðfræðisviðs Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Plöntusteingervingar frá Brjánslæk varðveittir í steingervingasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Mynd: Margrét Hallsdóttir

Plöntusteingervingar úr steingervingasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Borkjarnasafn

Á undanförnum áratugum hafa safnast upp borkjarnar hjá Orkustofnun, Landsvirkjun, Vegagerðinni og ýmsum fleiri aðilum sem hafa staðið fyrir jarðborunum í rannsóknaskyni. Þessir aðilar hafa sent borkjarna til varanlegrar geymslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt tiltækum upplýsingum. Borkjarnasafnið var um árabil varðveitt á Akureyri en var flutt til Breiðdalsvíkur í nóvember 2015. Ráðgert er að samræma og færa allar upplýsingar um borkjarnana í gagnagrunn sem nýst gæti jarðfræðingum hvort heldur er í jarðlagafræði, bergfræði eða steindafræði. Alls er um að ræða um 30-40.000 metra af borkjörnum.

Borkjarnar í borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands í Breiðdalsvík
Mynd: Birgir Vilhelm Óskarsson

Borkjarnar úr borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands á Breiðdalsvík

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |