Óðinshani (Phalaropus lobatus)

Útbreiðsla

Óðinshani verpur umhverfis norðurhvel jarðar, þar á meðal í N-Evrópu. Óðinshani er alger farfugl og hafa merkingar með dægurritum sýnt að fuglar hér og í Skotlandi dveljast við strendur Perú og Ekvador á veturnar (Van Bemmelen o.fl. 2019).

Stofnfjöldi

Óðinshani er allalgengur varpfugl í auðugu votlendi víða um land og hefur stofninn verið gróflega metinn 50.000 pör (Thorup 2006). Nýlegt mat er miklu lægra eða um 10.000 pör en jafnframt nokkrum annmörkum háð (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Það er samdóma álit manna að óðinshana hafi fækkað verulega hér síðan um 1960 en litlar tölulegar upplýsingar eru fyrir hendi.

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Útbreiðslukortið (sjá kort) endurspeglar líklega hlutfallslega dreifingu óðinshana þar sem votlendi á hásléttum Austurlands: Jökuldalsheiði, Fljótsdalsheiði og Vesturöræfi skora hátt, sem og Arnarvatnsheiði fyrir vestan. Þéttleiki óðinshana mælist illa því þeir eru víða hnappdreifðir og auk þess oft erfitt að túlka varpatferli þeirra. Úttektin gaf aðeins 10.400 pör, nokkuð jafnskipt neðan og ofan 300 m hæðarlínu og gætu um 28% þeirra orpið innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu) (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017).

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 3,21 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir eða 10 ár hvort sem er lengra): 2014-2024

Afar litlar tölulegar upplýsingar eru til um íslenska óðinshana og þróun stofnsins. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur telja flestir að óðinshönum hafi fækkað mikið og að hann sé víða miklu sjaldgæfari en áður. Niðurstöður úr vöktun mófugla á Mýrunum í Borgarbyggð og Bakka við Markarfljót benda til þess að fjöldi óðinshana hafi lítið breyst (Náttúrufræðistofnun, óbirt gögn). Fylgst hefur verið með fjölda óðinshana í Flatey síðan 1975 og þeir jafnvel búnir ljósritum (Ævar Petersen og Sverrir Thorstensen, 2016). Þrátt fyrir miklar sveiflur virðist fjöldi fugla nokkuð stöðugur til lengri tíma litið (Ævar Petersen og Sverrir Thorstensen, óbirt gögn). Talningar í Mývatnssveit sýna fækkun upp á 44% síðan 2014. Miklar sveiflur eru þó á milli ára sem geta farið eftir komutíma til landsins sem tengist veðri. Því er óvíst hvort um raunverulegar stofnsveiflur er að ræða (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023). Líklegt má telja að óðinshana hafi fækkað á landinu, en í ljósi þess hve lítið er til af gögnum á viðmiðunartímabilinu verður hann af varfærni flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu (NT).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Óðinshani var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Óðinshani var flokkaður sem Gögn vantar (DD).

Verndun

Óðinshani er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

Engin töluleg viðmið hafa verið tilgreind til að skilgreina mikilvæg fuglasvæði fyrir óðinshana (Heath og Evans 2000). Mörg hundruð og jafnvel þúsundir fugla safnast saman síðsumars á strandvötn hér og hvar um landið og eins á sjó. Langt fram eftir síðustu öld var t.d. gríðarleg mergð óðinshana á Mývatni á þessum árstíma.

IBA viðmið – IBA criteria:

A3: Arctic

Töflur

Reiknaður fjöldi óðinshana sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Phalaropus lobatus within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 175 2013 1,7  
Laxárdalsheiði VOT-V_3 B 185 2013 1,8  
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 466 2013 4,5  
Víðidalstunguheiði–Blanda VOT-N_2 B 113 2013 1,1  
Skagi VOT-N_5 B 159 2013 1,5  
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 163 2013 1,6  
Vatnajökulsþjóðgarður VOT-N_15 B 164 2013 1,6  
Jökuldalsheiði VOT-A_2 B 313 2013 3,0  
Úthérað VOT-A_3 B 115 2013 1,1  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 714 2013 6,8  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 373 2013 3,6  
Alls–Total     2.940   28,2  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn

Myndir

Heimildir

Heath, M.F. og M. I. Evans, ritstj. 2000. Important Bird Areas in Europe: Priority sites for conservation. Volume I – Northern Europe. Cambridge: BirdLife International.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Thorup, O., ritstj. 2006. Breeding waders in Europe 2000. International Wader Studies 14. Thetford: International Wader Study Group. (Tölur yfir íslenska stofna byggjast á óbirtri samantekt: Guðmundur A. Guðmundsson 2002. – Estimates of breeding populations of Icelandic waders worked out for the „Breeding waders in Europe 2000” report).

Van Bemmelen, Rob SA, Yann Kolbeinsson, Raül Ramos, Olivier Gilg, José A. Alves, Malcolm Smith, Hans Schekkerman et al. 2019. A migratory divide among red-necked phalaropes in the Western Palearctic reveals contrasting migration and wintering movement strategies. Frontiers in Ecology and Evolution 7 (2019): 86.

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson. (2023). Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf

Ævar Petersen og Sverrir Thorstensen (2016). Nýlegar rannsóknir á fuglum í Breiðafjarðareyjum. Breiðfirðingur: bls 174-190.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir og Borgný Katrínardóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Óðinshani (Phalaropus lobatus)

English Summary

The Phalaropus lobatus population in Iceland is estimated 10,400 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 28% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.

Icelandic Red list 2025: Near threatened (NT).