Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

Útbreiðsla

Þúfutittlingur verpur í norðanverðri Evrópu og hefur vetursetu sunnar í álfunni og í N-Afríku. Hér verpur hann í grónu landi um land allt og er afar algengur.

Stofnfjöldi

Giskað hefur verið á að varpstofn þúfutittlings á Íslandi sé 500.000−1.000.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992) sem er í góðu samræmi við mat á stofni þúfutittlings á láglendi <200 m h.y.s., út frá búsvæðavali og þéttleikamælingum eða um 545 þúsund pör (Tómas G. Gunnarsson o.fl. 2007). Hlíðstæð aðferð sem byggði á mun ítarlegri gögnum, einkum frá árunum 2012 og 2013, gaf um 1.500 þúsund pör á landinu öllu (Kristinn Haukur Skarphéðisson o.fl. 2016).

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Þúfutittlingur verpur einkum á láglendi en finnst þó í allt að 600 m hæð yfir sjó (sjá kort). Reiknuð stofnstærð er 1.516.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2016). Mestur er þéttleikinn í graslendi 78,4 pör/km², í mýravistum 69,2 pör/km² og í lúpínu 67,4 pör/km². Mikilvægustu vistgerðir/vistlendi eru móavist, 563.000 pör, og mýravistir, 318.000 pör. Um 28% þúfutittlinga reiknast innan mikilvægra fuglasvæða og munar þar mestu um Suðurlandsundirlendi, 14% (sjá töflu). Samkvæmt þessu er þúfutittlingur algengasti mófugl landsins og e.t.v. algengasti fugl landsins nú um stundir í ljósi þess hve lunda hefur fækkað mikið á síðustu árum.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 2,22 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir eða 10 ár hvort sem er lengra): 2014-2024

Þúfutittlingsstofninn hér á landi er mjög stór og verpur dreift. Stofnin sveiflast væntanlega nokkuð milli ára og einnig viðkoman. Þúfutittlingur hefur verið vaktaður um skeið á fimm stöðum á landinu sem hluti af vöktun mófugla. Þessar talningar eru á Suðurlandsundirlendinu, Mýrum í Borgarbyggð, við Markarfljót, í Þingeyjarsýslum og á Úthéraði (Náttúrufræðistofnun, óbirt gögn, Pálsdóttir et al 2024, Yann Kolbeinsson o.fl. 2023, Áslaug Lárusdóttir o.fl. 2023). Þúfutittlingi fækkar lítillega á Suðurlandi en á öðrum svæðum hefur hann staðið í stað. Til að reikna stofnþróun þúfutittlings yfir tímabilið var notast við vegið meðaltal úr þessum talningum þar sem árleg breyting er margfölduð með hlutfallslegum fjölda fugla sem taldir voru í upphafi á hverju svæði fyrir sig. Samkvæmt þessu hefur þúfutittlingi fækkað um 2,5% á ári sem myndi jafngilda 10-15% fækkun á viðmiðunartímabilinu. Stofninn er þó stór og útbreiddur og flokkast eins og er sem (LC).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Þúfutittlingur var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Þúfutittlingur var ekki í hættu (LC).

Staða á heimsvísu

Þúfutittlingum hefur fækkað í Evrópu og á heimsvísu en eru þó metnir ekki í hættu (LC) á válistum (BirdLife International 2021).

Verndun

Þúfutittlingur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

Engin mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir þúfutittling á Íslandi.

IBA viðmið – IBA criteria:

B3: Species of European conservation concern (category 4)

Töflur

Reiknaður fjöldi þúfutittlinga sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Anthus pratensis within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 26.049 2013 1,7  
Laxárdalsheiði VOT-V_3 B 21.571 2013 1,4  
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 17.869 2013 1,2  
Skagi VOT-N_5 B 20.663 2013 1,4  
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 51.756 2013 3,4  
Úthérað VOT-A_3 B 18.108 2013 1,2  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 214.543 2013 14,2  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 48.594 2013 3,2  
Alls–Total     419.153   27,7  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpubl. data

Myndir

Heimildir

Áslaug Lárusdóttir, Erlín Emma Jóhannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Halldór Walter Stefánsson, Hálfdán Helgi Helgason, Jóhann Finnur Sigurjónsson, Kolbrún Þóra Sverrisdóttir, Kristín Ágústsdóttir og Margrét Gísladóttir (2023). Náttúrustofa Austurlands, ársskýrsla 2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://drive.google.com/file/d/1GTiIzOzIdq3ng4ZeYPCvUJDEE2pP4huw/view

BirdLife International (2021). Species factsheet: Meadow Pipit Anthus pratensis. Downloaded from https://datazone.birdlife.org/species/factsheet/meadow-pipit-anthus-pratensis  [skoðað 01.04.2025]

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Pálsdóttir, A. E., Þórisson, B., & Gunnarsson, T. G. (2025). Recent population changes of common waders and passerines in Iceland’s largest lowland region. Bird Study, 1–13. https://doi.org/10.1080/00063657.2025.2450394

Tómas G. Gunnarsson, Graham F. Appleton, Hersir Gíslason, Arnþór Garðarsson, Philip W. Atkinson og Jennifer A. Gill 2007. Búsvæðaval og stofnstærð þúfutittlings á láglendi. Bliki 28: 19–24.

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson. (2023). Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf


Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir og Borgný Katrínardóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Spörfuglar (Passeriformes)
Tegund (Species)
Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

English Summary

Anthus pratensis is one of the most common birds in Iceland. The population is estimated one and a half million pairs based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 28% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.

Icelandic Red list 2025: Least concern (LC).