Gestir

Auk varpfugla koma hingað ýmsar fuglategundir á reglubundnum ferðum milli varp- og vetrarheimkynna, til vetrardvalar og jafnvel sumardvalar. Sumar þeirra eru jafnframt varpfuglar hér og eða geta bæði verið fargestir og vetrargestir.

Fargestir

Nokkrar fuglategundir fara hér um vor og haust og dveljast um nokkurra vikna skeið á leið milli norðlægra varpslóða og vetrarstöðva á Bretlandseyjum eða annars staðar í Vestur-Evrópu. Kunnastar eru þrjár tegundir gæsa: blesgæs (dvelst einkum á Suðurlandsundirlendi og við innanverðan Faxaflóa), helsingi (aðallega norðanlands á vorin en í Skaftafellssýslum á haustin) og margæs (Faxaflói og Breiðafjörður). Einnig koma hér við þrjár tegundir vaðfugla: rauðbrystingur, sanderla og tildra sem halda sig aðallega í fjörum, einkum vestanlands.

Af öðrum fargestum má nefna fjallkjóa (sem hefur orpið hér) og ískjóa sem fara um hafsvæðið umhverfis Ísland en fljúga stundum líka yfir landið.

Margar tegundir sem verpa hér fara einnig um landið á leið sinni til norðlægari varpstöðva, eins og heiðagæs, lóuþræll og snjótittlingur. Lesa má nánar um fargesti í greininni Fargestir á Íslandi (pdf) í Blika 30, bls. 1–8.

Vetrargestir

Á haustin koma hingað nokkrar tegundir til vetrardvalar sem sjást yfirleitt ekki á öðrum árstímum. Meðal þessara eindregnu vetrargesta er bjartmáfur frá Grænlandi og Norðaustur-Kanada sem er algengur og útbreiddur með ströndum landsins og æðarkóngur sem kemur væntanlega frá Grænlandi. Einnig koma hingað í ríkum mæli ýmsar tegundir sem verpa jafnframt hér, eins og æðarfuglar frá Norðaustur-Grænlandi og Svalbarða og svartfuglar frá Svalbarða og víðar.

Sumargestir

Tvær tegundir pípunefja koma hingað frá varpstöðum á Suðurhveli og dvelja á hafinu við landið á vorin og jafnvel fram á haust. Gráskrofa sést hér aðallega við sunnanvert landið í ágúst og fram í október en hettuskrofa er mun sjaldgæfari nú orðið og sést einkum suður og vestur af landinu fyrri hluta sumars.

Flækingsfuglar

Langflestar fuglategundir sem hér hafa sést hafa hrakist eða villst af leið á ferðum sínum milli annarra landa eða slegist í hóp með skyldum tegundum. Sumar tegundanna eru algengar og árvissar, eins og hettusöngvari sem kemur hingað aðallega á haustin. Aðrar eru sárasjaldgæfar og margar hafa aðeins sést hér einu sinni. Upplýsingum um sjaldgæfa fugla hefur verið safnað skipulega um áratugaskeið og samantektir fyrir hvert ár birtar í Blika, tímariti um fugla. Með þessu móti hefur fengist gott yfirlit um þennan hóp fugla, meðal annars um landnám ýmissa sjaldgæfra varpfugla sem hafa verið að festa hér rætur á síðustu árum, eins og brandönd og glókoll.