Kjói (Stercorarius parasiticus)

Útbreiðsla

Kjói verpur á norðlægum slóðum allt í kringum hnöttinn. Hér verpur hann víða, yfirleitt í stökum pörum en sums staðar mjög þétt, þannig að unnt er að tala um byggðir. Kjóinn er alger farfugl sem dvelst sunnarlega í S-Atlantshafi að vetrarlagi (Sölvi Rúnar Vignisson o.fl. 2015).

Stofnfjöldi

Kjóastofninn var metinn gróflega upp úr 1970 og þá talinn 4.000−12.000 pör (Bengtson og Owen 1973) og hafa þær tölur verið settar fram með ýmsum hætti síðan. Takmarkaðar athuganir benda eindregið til þess að kjóum hafi fækkað á mikilvægum varpstöðvum, t.d. á Úthéraði (Halldór Walter Stefánsson 2014), en þar var stofninn metinn um 1.300 pör árið 2000 (Guðmundur A. Guðmunds­son o.fl. 2001). Athuganir á Mýrum frá 2006 benda til hins sama (Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn). Sandsílastofninn við Suðurland hrundi árið 2005 (Kristján Lilliendahl o.fl. 2013) og hefur það haft mikil áhrif á varp margra fuglategunda, þar á meðal kjóa sem t.d. urpu lítið eða ekkert við Markarfljót 2008−2014, þótt fuglarnir hafi mætt á óðul sín (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2014). 

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Kjói er strjáll varpfugl um allt land (sjá kort). Varpþéttleiki er mestur í mosavist á láglendi (1,1 par/km²) þar sem finna má 29% varpstofnsins og í mýravistum á hálendi (0,3 pör/km²) þar sem um 10% stofnsins verpa  og eru það mikilvægustu búsvæðin. Reiknuð stofnstærð er 11.000 pör og eru 8.600 þeirra á láglendi (78%). Um 23% kjóastofnsins gætu orpið innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu 2). Tekið skal fram að þetta mat byggir mjög lítið á mælingum úr þéttustu varpsvæðum kjóans.

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
EN LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 13,5 árTímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2005–2045

Kjóastofninn Íslandi hefur aldrei verið vel þekktur en ljóst er að kjóum hefur fækkað mikið á sumum lykilvarpstöðvum eins og á Mýrum, en miklu minna af kjóa varp þar á árunum 2006–2017 heldur en á árunum 1991–1995 (Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn) en tölulegar upplýsingar eru þó aðeins til fyrir seinna tímabilið. Kjóinn er langlífur fugl og er því viðmiðunartímabilið mjög langt eða 40 ár. Beinar talningar eða vísitölur ná aðeins til seinni hluta þess en þær benda m.a. til allt að 80% samdráttar í kjóavarpi á Úthéraði 2005–2016 (Halldór W. Stefánsson 2017) sem þýddi útdauða á þessu svæði á viðmiðunartímabilinu 2005–2045. Kjói ætti samkvæmt þessu að vera flokkaður sem tegund í bráðri hættu en er hér á grundvelli fremur takmarkaðra gagna flokkaður sem í hættu (EN, A4abc).

Viðmið IUCN: A4abc

A4. Fækkun í stofni ≥50% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:(a) beinni athugun,(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Kjói var ekki í hættu (LC).

Verndun

Kjói er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt að veiða kjóa í og við friðlýst æðarvarp á tímabilinu 15. apríl til 14. júlí.

Válisti

Úthérað er eina varpsvæði kjóa hér á landi sem gæti verið alþjóðlega mikilvægt (sjá töflu 1).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 ii: heimsstofn/global = 3.750 pör/pairs (Bird­Life 2016)

B1 ii: Ísland = 480 pör/pairs; stofn/population: Evrópa (BirdLife 2016)

Töflur

Tafla 1: Kjóavarp á mikilvægu fuglasvæðum á Íslandi – A breeding congregation of Stercorarius parasiticus in an important bird area in Iceland.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Úthérað VOT-A_3 B 1.300 2000 17,3 B1ii
*byggt á Guðmundur A. Guðmundsson o.fl. 2001.      

Tafla 2: Reiknaður fjöldi kjóa sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Stercorarius parasiticus within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Borgarfjörður–Mýrar–Löngufjörur FG-V_10 B 113 2016 1,0 B1i, B2
Laxárdalsheiði VOT-V_3 B 183 2016 1,7 A4iii, B1i, B2
Arnarvatnsheiði VOT-N_1 B 220 2016 2,0 A4i, A4iii, B1i, B2
Skagi VOT-N_5 B 147 2016 1,3 B1i, B2
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 326 2016 3,0 B1i, B2
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 959 2016 8,7 B1i, B2
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 579 2016 5,3  
Alls–Total     2.527   23,1  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpublished data.

Myndir

Heimildir

Bengtson, S.-A. og D.F. Owen 1973. Polymorphism in the Arctic Skua Stercorarius parasiticus in Iceland. Ibis 115: 87–92.

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Guðmundur A. Guðmundsson, Guðmundur Guðjónsson, Sigurður H. Magnússon, Kristbjörn Egilsson, Halldór Walter Stefánsson og Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2001. Kárahnjúkavirkjun: áhrif breytinga á vatnafari Jökulsár á Dal og Lagarfljóts á gróður, fugla og seli. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-01005. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands. http://utgafa.ni.is/skyrslur/2001/NI-01005.pdf [skoðað 30.4.2018].

Halldór W. Stefánsson 2014. Vöktun skúms á Úthéraði 2005–2013. Náttúrustofa Austurlands, NA-140136. Neskaupsstaður: Náttúrustofa Austurlands.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Svenja N.V. Auhage og Guðmundur A. Guðmundsson 2014. Bakkafjöruvegur: vöktun á fuglalífi 2007−2014. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-14008. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands. http://utgafa.ni.is/skyrslur/2014/NI-14008.pdf [skoðað 30.4.2018].

Kristján Lilliendahl, Erpur S. Hansen, Valur Bogason, Marinó Sigursteinsson, Margrét L. Magnúsdóttir, Páll M. Jónsson, Hálfdán H. Helgason, Gísli J. Óskarsson, Pálmi F. Óskarsson og Óskar J. Sigurðsson 2013. Viðkomubrestur lunda og sandsílis við Vestmannaeyjar. Náttúrufræðingurinn 83: 65–79.

Sölvi Rúnar Vignisson, Gunnar Þór Hallgrímsson og Yann Kolbeinsson 2015. Migration of the Icelandic Arctic Skua Stercorarius parasiticus. Veggspjald kynnt á 2nd World Seabird Conference, 26.–30. október 2015, Höfðaborg, S-Afríku.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Kjói (Stercorarius parasiticus)

Samantekt á Ensku

Stercorarius parasiticus population in Iceland is estimated 11,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution. Approx. 23% of the birds may nest in IBAs designated for other species. The population is poorly known, but numbers have declined drastically in some key breeding areas since the turn of the century.

Icelandic Red list 2018: Endangered (EN, A4abc), uplisted from Least concern (LC) in 2000.