Rita (Rissa tridactyla)

Útbreiðsla

Ritan er algengur varpfugl á norðurhveli jarðar og verpur í sjávarklettum umhverfis landið (sjá kort). Hún heldur sig yfirleitt fjarri ströndum yfir háveturinn, þar á meðal umhverfis Ísland og austur af Nýfundnalandi (Frederiksen o.fl. 2011).

Stofnfjöldi

Ritustofninn taldi um 580 þúsund pör á árunum 2005−2009 (Arnþór Garðarsson o.fl. 2013). Langstærsta byggðin er í björgunum við Hornvík en einnig eru stór vörp á Langanesi, í Grímsey, Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og Látrabjargi. Ritu hafði fækkað í heild um 12% frá fyrri talningu (1983−1985) og þá mest í Langanesbjörgum og Grímsey en fjölgað verulega í Vestmannaeyjum og Krýsuvíkurbergi. 

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU VU LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 12,9 árTímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1987–2017

Ritu fækkaði um 12% milli talninga frá því kringum 1985 til 2007 (Arnþór Garðarsson o.fl. 2013) eða um 0,6% á ári. Fækkunin var mest í Langanesbjörgum, en einnig í Grímsey, Skrúðnum, Ingólfshöfða og Mýrdal. Á Hornströndum fjölgaði ritu nokkuð og veruleg fjölgun varð í Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og við Húnaflóa. Framreiknað fyrir viðmiðanatímabil (1985–2024) þýddi þetta um 20% fækkun. Talningar frá og með 2009 í völdum ritubyggðum sýna áframhaldandi og mun meiri fækkun víðast hvar, m.a. um 30% í Hælvíkurbjargi eða um 4,35% á ári (Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2017). Í ljósi þess að yfir 40% af íslenska rituvörpunum er við Hornvík vegur slík fækkun þar mjög þungt en hún virðist þó vera að ganga til baka. Ritan er því flokkuð hér sem tegund í nokkurri hættu (VU, A4ab).

Viðmið IUCN: A4ab

A4. Fækkun í stofni ≥30% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:(a) beinni athugun,(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Rita var ekki í hættu (LC).

Verndun

Rita er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka ritu taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða ritu frá 1. september til 15. mars.

Válisti

Ritu hefur fækkað verulega í Evrópu frá því upp úr 1980 og er hún því á válista þar sem tegund í nokkurri hættu (VU; BirdLife International 2015).

Alls eru 10 íslensk rituvörp flokkuð sem alþjóðlega mikilvæg og verpa um 94% stofnsins á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Austanvert Atlantshaf = 22.000 pör/pairs (Wetlands International 2016).

B1 i: A4 i

Töflur

Mikilvæg rituvörp á Íslandi – Important colonies of Rissa tridactyla in Iceland*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Krýsuvíkurberg  SF-V_1 B 46.564 2005 8,0 A4i, A4iii, B1i, B2
Borgarfjörður–Löngufjörur SF-V_6 B 5.648 2006 1,0  
Snæfellsnes SF-V_7 B 9.995 2005 1,7  
Breiðafjörður SF-V_8 B 10.313 2006 1,8 A4iii, B2
Látrabjarg  SF-V_13 B 32.028 2007 5,5 A4i, A4iii, B1i, B2
Ritur SF-V_31 B 19.166 2007 3,3 A4iii, B2
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg SF-V_35, 36 B 243.759 2007 42,0 A4i, A4iii, B1i, B2
Drangey SF-N_2 B 7.362 2007 1,3  
Grímsey út af Eyjafirði SF-N_8 B 32.840 2007 5,7 A4i, A4iii, B1i, B2
Melrakkaslétta SF-N_12 B 14.212 2006–2008 2,4 A4iii, B2
Skoruvíkurbjarg SF-N_13 B 30.063 2008 5,2 A4i, A4iii, B1i, B2
Langanesbjörg SF-N_14 B 21.631 2006–2008 3,7 A4iii, B2
Skrúður SF-A_8 B **6.692 2007 1,2  
Papey SF-A_11 B 5.582 2008 1,0  
Vestmannaeyjar SF-S_4 B 50.185 2006–2008 8,6 A4i, A4iii, B1i, B2
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 8.409   1,4  
Alls–Total     544.449   93,7  
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl., 2013.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Lilliendahl 2013. Framvinda íslenskra ritubyggða. Bliki 32: 1–10.

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

Frederiksen, M., B. Moe, F. Daunt, R.A. Phillips, R.T. Barrett, M.I. Bogdanova, T. Boulinier, J.W. Chardine, O. Chastel, L.S. Chivers, S. Christensen-Dalsgaard, C. Clément-Chastel, K. Colhoun, R. Freeman, A.J. Gaston, J. González-Solís, A. Goutte, D. Grémillet, T. Guilford, G.H. Jensen, Y. Krasnov, S.-H. Lorentsen, M.L. Mallory, M. Newell, B. Olsen, D. Shaw, H. Steen, H. Strøm, G.H. Systad, T.L. Thórarinsson og T. Anker-Nilssen 2011. Multicolony tracking reveals the winter distribution of a pelagic seabird on an ocean basin scale. Diversity and Distribution 17: 1–13.

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson  2017. Vöktun bjargfuglastofna 2017. Framvinduskýrsla. Náttúrustofa Norðausturlands. NNA-1708.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Rita (Rissa tridactyla)

Samantekt á Ensku

Rissa tridactyla is a common breeding bird in Iceland with 580,000 pairs; ten colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and 93.7% of the population breeds within IBAs.

Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, A4ab), uplisted from Least concern (LC) in 2000.