Rita (Rissa tridactyla)

Útbreiðsla

Ritan er algengur varpfugl á norðurhveli jarðar og verpur í sjávarklettum umhverfis landið (sjá kort). Hún heldur sig yfirleitt fjarri ströndum yfir háveturinn, þar á meðal umhverfis Ísland og austur af Nýfundnalandi (Frederiksen o.fl. 2011). Ritum hefur fækkað á heimsvísu á undanförnum árum og var stofninn metinn í nokkurri hættu (VU) árið 2017 eftir að hafa verið talinn ekki í hættu (LC) frá 1988 (BirdLife International 2018).

Stofnfjöldi

Ritustofninn taldi um 580 þúsund pör á árunum 2005−2009 (Arnþór Garðarsson o.fl. 2013). Langstærsta byggðin er í björgunum við Hornvík en einnig eru stór vörp á Langanesi, í Grímsey, Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og Látrabjargi. Ritu hafði fækkað í heild um 12% frá fyrri talningu (1983−1985) og þá mest í Langanesbjörgum og Grímsey en fjölgað verulega í Vestmannaeyjum og Krýsuvíkurbergi. Á talningatímabilinu 2009-2023 hefur fjöldi rita á sniðum í völdum björgum breyst mikið. Fækkað hefur í Skoruvíkurbjargi, Hælavíkurbjargi, Látrabjargi og á Snæfellsnesi en á sama tíma hefur fjölgað í Grímsey, Drangey, Kerlingu, Ingólfshöfða og Papey (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023).

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU VU VU

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 9,52 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985–2024

Ritu fækkaði um 12% milli talninga frá því kringum 1985 til 2007 (Arnþór Garðarsson o.fl. 2013) eða um 0,6% á ári. Fækkunin var mest í Langanesbjörgum, en einnig í Grímsey, Skrúðnum, Ingólfshöfða og Mýrdal. Á Hornströndum fjölgaði ritu nokkuð og veruleg fjölgun varð í Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og við Húnaflóa. Athuganir á sniðum í völdum björgum frá og með 2009 ritubyggðum sýna miklar breytingar í flestum björgum (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023). Ef gert er ráð fyrir að breytingar á sniðum endurspegli breytingar í öllu bjarginu sem talið er í samsvarar það um 36% heildarfækkun. Árleg fækkun á viðmiðunarárunum er því rúmlega 1% á ári eða 32% fækkun yfir viðmiðunartímabilið (1985-2024). Ritan er því flokkuð hér sem tegund í nokkurri hættu (VU, A4ab).

Viðmið IUCN: A4ab

A4. Fækkun í stofni ≥30% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:
(a) beinni athugun,
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Rita var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Rita var í nokkurri hættu (VU).

Verndun

Rita er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka ritu taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða ritu frá 1. september til 15. mars.

Mikilvæg svæði

Ritu hefur fækkað verulega í Evrópu frá því upp úr 1980 og er hún því á válista þar sem tegund í nokkurri hættu (VU; BirdLife International 2015).

Alls eru 10 íslensk rituvörp flokkuð sem alþjóðlega mikilvæg og verpa um 94% stofnsins á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Austanvert Atlantshaf = 22.000 pör/pairs (Wetlands International 2016).

B1 i: A4 i

Töflur

Mikilvæg rituvörp á Íslandi – Important colonies of Rissa tridactyla in Iceland*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Krýsuvíkurberg  SF-V_1 B 46.564 2005 8,0 A4i, A4iii, B1i, B2
Borgarfjörður–Löngufjörur SF-V_6 B 5.648 2006 1,0  
Snæfellsnes SF-V_7 B 9.995 2005 1,7  
Breiðafjörður SF-V_8 B 10.313 2006 1,8 A4iii, B2
Látrabjarg  SF-V_13 B 32.028 2007 5,5 A4i, A4iii, B1i, B2
Ritur SF-V_31 B 19.166 2007 3,3 A4iii, B2
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg SF-V_35, 36 B 243.759 2007 42,0 A4i, A4iii, B1i, B2
Drangey SF-N_2 B 7.362 2007 1,3  
Grímsey út af Eyjafirði SF-N_8 B 32.840 2007 5,7 A4i, A4iii, B1i, B2
Melrakkaslétta SF-N_12 B 14.212 2006–2008 2,4 A4iii, B2
Skoruvíkurbjarg SF-N_13 B 30.063 2008 5,2 A4i, A4iii, B1i, B2
Langanesbjörg SF-N_14 B 21.631 2006–2008 3,7 A4iii, B2
Skrúður SF-A_8 B **6.692 2007 1,2  
Papey SF-A_11 B 5.582 2008 1,0  
Vestmannaeyjar SF-S_4 B 50.185 2006–2008 8,6 A4i, A4iii, B1i, B2
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 8.409   1,4  
Alls–Total     544.449   93,7  
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl., 2013.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson, Guðmundur A. Guðmundsson og Kristján Lilliendahl 2013. Framvinda íslenskra ritubyggða. Bliki 32: 1–10.

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

BirdLife International (2018). Species factsheet: Black-legged Kittiwake Rissa tridactyla. Downloaded from https://datazone.birdlife.org/species/factsheet/black-legged-kittiwake-rissa-tridactyla  [skoðað 30.03.2025]

Frederiksen, M., B. Moe, F. Daunt, R.A. Phillips, R.T. Barrett, M.I. Bogdanova, T. Boulinier, J.W. Chardine, O. Chastel, L.S. Chivers, S. Christensen-Dalsgaard, C. Clément-Chastel, K. Colhoun, R. Freeman, A.J. Gaston, J. González-Solís, A. Goutte, D. Grémillet, T. Guilford, G.H. Jensen, Y. Krasnov, S.-H. Lorentsen, M.L. Mallory, M. Newell, B. Olsen, D. Shaw, H. Steen, H. Strøm, G.H. Systad, T.L. Thórarinsson og T. Anker-Nilssen 2011. Multicolony tracking reveals the winter distribution of a pelagic seabird on an ocean basin scale. Diversity and Distribution 17: 1–13.

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Brynjúlfur Brynjólfsson, Cristian Gallo, Hálfdán Helgi Helgason, Jón Einar Jónsson, Rodrigo A. Martínez Catalán, Róbert Arnar Stefánsson og Sindri Gíslason. Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2020-2022 (2023). Skýrsla unnin fyrir umhverfisstofnun (NNA-2304). https://nna.is/wp-content/uploads/2023/10/2304-Bjargfuglavoktun-2020-2022.pdf

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Rita (Rissa tridactyla)

English Summary

Rissa tridactyla is a common breeding bird in Iceland with 580,000 pairs; ten colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and 93.7% of the population breeds within IBAs.

Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU, A4ab).