
Útbreiðsla
Fýllinn er mjög algengur varpfugl á norðlægum slóðum og oft talinn næstalgengasti fugl landsins á eftir lunda (sjá þó umfjöllun um þúfutittling). Hann verpur víða með ströndum og sums staðar inn til landsins (sjá kort).
Stofnfjöldi
Talið er að stofninn telji um 1,2 milljónir para og verpa þau langflest á Vestfjörðum (Arnþór Garðarsson o.fl., í prentun).
Lýsing
Fýlar sem verpa hér við land eru af ljósa litarafbrigðinu. Dökkir fýlar (kolapiltar) sjást hér árlega en eru sjaldgæfir gestir frá varpstöðum í norðri.
Válistaflokkun
EN (tegund í hættu)
Ísland | Evrópuválisti | Heimsválisti |
---|---|---|
EN | VU | LC |
Forsendur flokkunar
Kynslóðalengd (IUCN): 25,23 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985-2061
Talningar sýna að fýl fækkaði hér við land líkt og annars staðar í Evrópu en þar urðu menn varir við þá þróun upp úr 1980. Fram að því hafði fýl fjölgað um langt skeið. Í stóru svartfuglabjörgunum fækkaði fýlum um 16% á árunum 1983/86–2014 eða 0,6% á ári (Arnþór Garðarsson o.fl., 2019). Hefur sú þróun haldið áfram og á enn meiri hraða, en talningar á sniðum í völdum björgum sýna um 44% fækkun milli 2009-2023 (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023) sem samsvarar um 5,6% á ári. Ef gert er ráð fyrir að talningar á sniðum endurspegli breytingar í bjarginu öllu, fæst að heildarfækkun fýla yfir tímabilið 1985-2023 er um 53% eða ~2% fækkun á ári. Haldi sú fækkun áfram út viðmiðunartímabilið (1985-2061) mun fýl fækka um 70-80% í heildina. Fýll er því flokkaður sem tegund í hættu (EN, A4ab) en þó ber að nefna að hann nálgast viðmið fyrir tegund í bráðri hættu (CR, 80% fækkun).
Viðmið IUCN: A4abc
A4. Fækkun í stofni ≥50% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:
(a) beinni athugun,
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,
(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2000: Fýll var ekki í hættu (LC).
Válisti 2018: Fýll var í hættu (EN).
Staða á heimsvísu
Fýll var settur á evrópskan válista sem tegund í hættu (EN) árið 2015 þar sem honum hafði fækkað hratt síðustu 30 árin á undan. Árið 2021 var hann flokkaður í nokkurri hættu (VU) sökum þess að kynslóðalengd hans var endurmetin og þar af leiðandi breyttist viðmiðunartímabilið, þó fækkunin haldi áfram (BirdLife International 2021). Á heimsválista er fýllinn metinn ekki í hættu (LC) (BirdLife International 2018).
Verndun
Fýll er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka fýls taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.
Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða fýl frá 1. september til 15. mars.
Mikilvæg svæði
Alls eru 38 fýlabyggðir flokkaðar sem alþjóðlega mikilvægar og verpa um 82% íslenska stofnsins innan slíkra svæða.
A4 ii: heimsstofn/global 75.000 pör/pairs (BirdLife 2016)
B1 ii: A4ii
Töflur
Mikilvægar fýlabyggðir á Íslandi (≥10.000 pör) – Important colonies of Fulmarus glacialis in Iceland*
Svæði Area | Svæðisnúmer Area code | Árstími Season | Fjöldi (pör) Number (pairs) | Ár Year | % af íslenskum stofni % of Icelandic popul. | Alþjóðlegt mikilvægi International importance |
---|---|---|---|---|---|---|
Breiðafjörður | SF-V_8 | B | 36.434 | 1975–2013 | 3,0 | A4iii, B2 |
Mýrarhyrna | SF-V_9 | B | 15.399 | 2014 | 1,3 | A4iii |
Kirkjufell | SF-V_10 | B | 11.468 | 2013 | 1,0 | A4iii |
Sandsfjöll | SF-V_12 | B | 11.035 | 2013 | 0,9 | A4iii |
Látrabjarg | SF-V_13 | B | 99.894 | 2009 | 8,3 | A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Blakkur | SF-V_15 | B | 51.571 | 2013 | 4,3 | A4iii, B2 |
Tálkni | SF-V_16 | B | 29.744 | 2013 | 2,5 | A4iii, B2 |
Selárdalshlíðar S | SF-V_17 | B | 25.428 | 2013 | 2,1 | A4iii |
Selárdalshlíðar N | SF-V_18 | B | 13.733 | 2013 | 1,1 | A4iii |
Skeggi | SF-V_19 | B | 10.339 | 2013 | 0,9 | A4iii |
Tóarfjall | SF-V_20 | B | 35.537 | 2013–2014 | 2,9 | A4iii, B2 |
Barði | SF-V_21 | B | 17.380 | 2014 | 1,4 | A4iii |
Hrafnaskálarnúpur | SF-V_22 | B | 10.540 | 2014 | 0,9 | A4iii |
Sauðanes | SF-V_23 | B | 12.380 | 2014 | 1,0 | A4iii |
Göltur–Öskubakur | SF-V_24 | B | 12.680 | 2014 | 1,1 | A4iii |
Stigahlíð–Deild | SF-V_25 | B | 33.541 | 2014 | 2,8 | A4iii, B2 |
Vébjarnarnúpur | SF-V_29 | B | 14.960 | 2014 | 1,2 | A4iii |
Grænahlíð | SF-V_30 | B | 15.400 | 2014 | 1,3 | A4iii |
Ritur | SF-V_31 | B | 12.278 | 2007 | 1,0 | A4iii |
Kögur | SF-V_32 | B | 27.360 | 2014 | 2,3 | A4iii |
Kjalarárnúpur | SF-V_33 | B | 19.167 | 2014 | 1,6 | A4iii |
Hælavíkurbjarg, Hornbjarg | SF-V_35, 36 | B | 35.613 | 2007 | 3,0 | A4iii, B2 |
Smiðjuvíkurbjarg | SF-V_36 | B | 26.212 | 2013 | 2,2 | A4iii |
Geirhólmur | SF-V_37 | B | 13.010 | 2013 | 1,1 | A4iii |
Tindastóll | SF-N_1 | B | 29.714 | 2015 | 2,5 | A4iii |
Hvanndalabjörg | SF-N_5 | B | 34.264 | 2013 | 2,8 | A4iii, B2 |
Ólafsfjarðarmúli | SF-N_6 | B | 27.356 | 2013 | 2,3 | A4iii |
Melrakkaslétta | SF-N_12 | B | 17.491 | 2008, 2014 | 1,5 | A4iii |
Langanesbjörg | SF-N_14 | B | 13.774 | 2006, 2014 | 1,1 | A4iii |
Viðvíkurbjörg | SF-A_1 | B | 56.415 | 2015 | 4,7 | A4iii, B2 |
Skálanesbjörg | SF-A_3 | B | 11.503 | 2014 | 1,0 | A4iii |
Gerpir | SF-A_5 | B | 22.659 | 2015 | 1,9 | A4iii |
Hvalnesfjall–Lón | SF-A_12 | B | 12.904 | 2015 | 1,1 | A4iii |
Vestrahorn–Fjarðarfjall | SF-A_13 | B | 17.000 | 2014 | 1,4 | A4iii |
Fagridalur–Vík | SF-S_1 | B | 13.813 | 2014 | 1,1 | A4iii |
Eyjafjöll: Steinafjall | SF-S_2 | B | 10.525 | 2015 | 0,9 | A4iii |
Eyjafjöll: Írá–Seljaland | SF-S_3 | B | 20.091 | 2015 | 1,7 | A4iii |
Vestmannaeyjar | SF-S_4 | B | 38.377 | 2006–2008 | 3,2 | A4iii, B2 |
Önnur mikilvæg svæði Other important areas |
B | 66.049 | 5,5 | |||
Alls–Total | 983.040 | 81,5 | ||||
*byggt á Arnþór Garðarsson o.fl., 2019. |
Myndir


Heimildir
Arnþór Garðarsson, Kristján Lilliendahl og Guðmundur A. Guðmundsson 2019. Fýlabyggðir á Íslandi 2013–2015. Bliki 33: 1–14.
Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].
BirdLife International (2018). Species factsheet: Northern Fulmar Fulmarus glacialis. Downloaded from https://datazone.birdlife.org/species/factsheet/northern-fulmar-fulmarus-glacialis 26/03/2025
BirdLife International (2021) European Red List of Birds. Luxembourg: Publications Office of the European Union.https://www.birdlife.org/wp-content/uploads/2022/05/BirdLife-European-Red-List-of-Birds-2021.pdf.pdf
Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Brynjúlfur Brynjólfsson, Cristian Gallo, Hálfdán Helgi Helgason, Jón Einar Jónsson, Rodrigo A. Martínez Catalán, Róbert Arnar Stefánsson og Sindri Gíslason. Vöktun bjargfuglastofna á Íslandi 2020-2022 (2023). Skýrsla unnin fyrir umhverfisstofnun (NNA-2304). https://nna.is/wp-content/uploads/2023/10/2304-Bjargfuglavoktun-2020-2022.pdf
Höfundur
Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018
Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025
- Tegund (Species)
- Fýll (Fulmarus glacialis)
English Summary
Fulmarus glacialis is the second most common breeding bird in Iceland with 1.2 million pairs; 38 colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and 81.5% of the population breeds within important bird areas (IBA).
Icelandic Red list 2025: Endangered (EN, A4abc).