Fálki (Falco rusticolus)

Útbreiðsla

Fálkinn (Falco rusticolus) er stærsta tegundin inna fálkaættarinnar (Falconidae). Hann er ránfugl og veiðir á bersvæði eða yfir vatni og sjó, bráðin er aðallega aðrir fuglar en einnig spendýr. Heimkynni fálkans eru norðurhjarinn hringinn í kringum pólinn. Hann er strjáll varpfugl á Íslandi og staðfugl. Fálkar eru margbreytilegir að lit og munur eftir heimkynnum. Til eru nær einlitir dökkir fálkar yfir í nær alhvíta. Tíðastir eru fálkar gráir á baki og með ljósan dröfnóttan kvið og þannig eru íslenskir fálkar á litinn. Hvítir fálkar (hvítfálkar Falco rusticolus candicans) heimsækja Ísland ár hvert en það eru fuglar frá Grænlandi.

Talið er að fálkinn sé uppruninn á sléttum Mið-Asíu og þar býr enn þann dag í dag systurtegund hans vargfálki (Falco cherrug). Það er álit fræðimanna að á ísöld hafi fuglar úr móðurstofni þessara tegunda lagt undir sig norðurhjarann og aðgreinst og aðlagast lífi á norðurslóðum. Fálkar hafa örugglega numið Ísland strax í lok ísaldar fyrir um 10.000 árum síðan og landnámið verið úr vestri líkt og landnám rjúpunnar.

Stofnfjöldi

Fálkinn er strjáll varpfugl hér á landi, talinn 300−400 pör (Umhverfisráðuneytið 1992; byggt á nákvæmri skráningu fálkaóðala) og sveiflast fálkinn með rjúpnastofninum (Ólafur K. Nielsen 2011). Kerfisbundin skráning hefðbundinna varpstaða fór fram um land allt 1985−1991 og eru nú þekkt 647 fálkaóðul (Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn). Þéttleiki óðala er mestur á norðanverðu landinu en sunnanlands fylgja þau hálendisbrúninni (sjá kort).

Ástand stofns

Íslenski fálkinn er alfriðaður og nýtur jafnframt aukinnar verndar þar sem bannað er að raska ró fálka við hreiður, svo sem til ljósmyndunar, nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Helstu ógnir við fálkann eru ofsóknir en allt að fjórðungur dauðra fálka sem berast til Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur verið skotinn og stuldur eggja hefur verið landlægt vandamál. Aðrar ógnir og mun alvarlegri með langtíma þróun fálkastofnsins í huga eru annars vegar uppsöfnun þrávirkra lífrænna efna (e. persistent organic pollutants) í líkama fuglanna og hins vegar hnignun rjúpnastofnsins. Þrávirku efnin eru framleidd af mönnum og losuð út í umhverfið í iðnaði, landbúnaði og við ýmsa aðra starfssemi, þau geta borist heimshorna á milli með hafstraumum og loftstraumum. Þessi efni eru mjög stöðug í umhverfinu og fituleysanleg þannig að ef þau ná inn í fæðuvefinn þá safnast þau fyrir í lífverum og styrkur þeirra magnast á milli þrepa í fæðupíramíðanum. Þau ná hæstum styrk hjá þeim lífverum sem sitja í efstu þrepum líkt og fálkinn. Neikvæð áhrif efnanna eru á frjósemi og heilsufar. Styrkur þrávirkra lífrænna efna er mjög hár í líkama íslenskra fálka og það veldur áhyggjum. Sama á við um langtíma hnignun rjúpnastofnsins en rjúpan er forsenda fyrir tilvist fálka á Íslandi.

Fálkarannsóknir

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur rannsakað tengsl fálka og rjúpu frá 1994 en fálkinn hefur verið rannsakaður á Íslandi frá 1981. Athuganasvæðið er á Norðausturlandi og þar er rannsakað hvernig stofnstærð fálka breytist með stofnstærð rjúpunnar og líka hvernig einstaklingar svara breytingum á fjölda rjúpna og þá horft til fæðu þeirra og frjósemi. Á rannsóknasvæðinu eru þekkt 83 fálkaóðul og þau eru heimsótt vor hvert til að meta ábúð og viðkomu. Fálkapör með unga fá heimsóknir að auki þar sem ungar eru merktir, líkamsástand þeirra metið og fæðuleifum safnað.

Lífshættir

Kynbundinn munur er á stærð fálka, kvenfuglinn er stærri og þyngri en karlfuglinn og vega kvenfuglar 1,5-2,0 kg en karlfuglar 1,1-1,3 kg. Það er líka munur á lit kynjanna, íslenskir fálkar eru gráir en karlfuglar að jafnaði ljósari en kvenfuglar og guli liturinn á tám og augnhring karlfuglanna er skærari.

Fálkar verða kynþroska tveggja til fjögurra ára  gamlir og elstu fálkar geta orðið 15-20 ára. Við kynþroska setjast þeir að á óðali og þar búa þeir síðan. Fálkaóðalið, sem er hreiðurkletturinn og næsta nágrenni hans, er setið ár eftir ár og kynslóð eftir kynslóð, fálki tekur við af fálka. Sum þessara óðala hafa örugglega verið setin af fálkum í þúsundir ára. Óðulin eru miseftirsótt, sum eru í ábúð á hverju ári en önnur aðeins þegar fálkastofninn er stór. Óðulin eru varin fyrir öðrum fálkum en veiðilöndin eru sameiginleg. Fálkar gera sér hreiður í klettum, sjálfir byggja þeir ekki eiginlegt hreiður heldur nýta sér hrafnslaup eða verpa í hreiðurskál sem þeir grafa á syllu eða í skúta. Fálkar verpa oftast 3–4 eggjum. Varptíminn frá upphafi tilhugalífs uns ungar yfirgefa foreldranna síðsumars er mjög langur og tekur um fjóra mánuði. Þeir verpa í síðari hluta apríl, ungar klekjast um mánaðarmótin maí/júní og verða fleygir um miðjan júlí. Ungarnir yfirgefa foreldra sína um mánaðarmótin júlí/ágúst og flakka um landið. Við kynþroska sækja karlfuglarnir á sínar æskuslóðir en kvenfuglarnir dreifst miklu víðar til varps.

Fæða

Aðalfæða fálkans er rjúpa og hann veiðir rjúpu á öllum tímum árs en þó sérstaklega á vorin og síðsumars og á haustin. Hann veiðir annars flestar þær tegundir fugla sem hér búa, allt frá smáfuglum líkt og auðnutittlingi (Acanthis flammea) sem vega um 15 g og upp í fullorðnar grágæsir (Anser anser) sem vega hátt í 3 kg. Auk fugla er hagamús (Apodemus sylvaticus) algeng bráð og einnig dæmi þess að þeir hafi tekið mink (Neovison vison) og fisk. Fálkar sækja líka í hræ.

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 6,4 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1999–2018

Fálkinn er fáliðaður (<1.000 kynþroska einstaklingar) og því flokkaður í nokkurri hættu (VU, D1).

Á Válista 2000 var fálkinn einnig flokkaður í hættu (VU).

Viðmið IUCN: D

D. Stofn mjög lítill eða takmarkaður.1. Stofn talinn vera minni en 1000 kynþroska einstaklingar.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Fálki var flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu (VU).

Verndun

Fálki er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Válisti

Um 18% fálkaóðala eru innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

Engin/none

Töflur

Fálkavarp á mikilvægum fuglasvæðum á Íslandi – Breeding Falco rusticolus in important bird areas in Iceland.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (óðul) Number (territories)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Hornstrandafriðland FG-V_13 B 7 2016 1,1  
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 14 2016 2,2  
Vatnajökulsþjóðgarður VOT-N_15 B 15 2016 2,3  
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 67 2016 10,3  
Alls–Total     103   15,8  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpubl. data      

Myndir

Heimildir

Ólafur K. Nielsen 2011. Gyrfalcon population and reproduction in relation to Rock Ptarmigan numbers in Iceland. Bls. 21–48. Í Watson, R.T., T.J. Cade, M. Fuller, G. Hunt og E. Potapov, ritstj. Gyrfalcons and Ptarmigans in a Changing World, bls. 21–48. Boise: The Peregrine Fund.

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Höfundur

Ólafur Karl Nielsen mars 2016, Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Fálki (Falco rusticolus)

Samantekt á Ensku

The Falco rusticolus population is estimated 300–400 pairs, based on a dedicated survey of breeding territories (647); 15% of the territories are within IBAs designated for other species.

Icelandi Red list 2018: Vulnerable (VU, D1), the same as last assessment in 2000.