Fylgst með ferðum hafarna

Haförninn Lambi, sem merktur var við sunnanverðan Breiðafjörð síðasta sumar, gerðist víðförull eftir að hann yfirgaf æskuóðal sitt í nóvember. Nokkrir ungar eru heimakærari og dvelja enn á æskuóðulum sínum þrátt fyrir að senn líði að varpi foreldranna. Þetta er meðal gagna sem koma frá leiðarritum (gps-/gsm-sendum) sem settir hafa verið á hafarnarunga í hreiðri síðustu ár. 

Á hverju sumri síðan 2019 hafa leiðarritar verið settir á arnarunga um allt varpsvæði arnarins í þeim tilgangi að varpa ljósi á búsvæðanotkun og ferðir ungra arna. Gögnin eru umfangsmikil og sýna ferðir og dreifingu fuglanna á öllum árstímum. Í júlí 2022 var leiðarriti settur á hafarnarungann Lamba og kom í ljós að fuglinn dvaldi á æskuóðalinu allt fram í nóvemberlok. Þá tók hann sig upp og fór suður yfir Snæfellsnesfjallagarð þar sem hann dvaldi í tvo daga áður en hann en hélt aftur til baka norður yfir. Þetta ferðalag virðist hafa ýtt undir frekari ævintýraleit því í byrjun desember var Lambi kominn norður í Hrútafjörð, fór þaðan aftur í Hvammsfjörð, yfir í Hrútafjörð og endaði árið í Bitrufirði á Ströndum. Í janúar flaug hann norður allar Strandir, allt að Horni, síðan um Aðalvík og Jökulfirði yfir í Djúp. Þar hefur hann haldið sig síðan um miðjan janúar. 

Hreyfimynd af ferðum Lamba frá lokum nóvember 2022 fram í byrjun mars 2023. Á þessum tíma birtast fáar staðsetningar dag hvern og virðist því ferðalagið skrykkjóttara en það er í raun. 

Sumarið 2022 voru sendar settir á 14 unga. Þrír drápust á æskuóðulum í september og október, þar af er skæð fuglaflensa staðfest dánarorsök hjá tveimur fuglanna. Sjö ungar eru farnir að heiman; þrír í nóvember, tveir í desember og tveir í janúar. Fyrstu arnraungarnir fara semsagt að heiman í október en meirihluti þeirra ekki fyrr en eftir áramót. Athygli vekur að fjórir ungar eru ennþá (13. mars 2023) heima við og er það óvenju seint miðað við fyrri ár en þá hafa a allir sendaungar verið búnir að hleypa heimdraganum í febrúar. Foreldrar þessara fugla fá  lítið andrými því það styttist í varptíma hjá örnum. Pörin fara að dytta að hreiðrum sínum í mars og verpa í apríl. 

Afdrif unga með sendi

Af 39 hafarnarungum sem hafa fengið á sig leiðarritara eru 30 enn lifandi. Af þeim sem drápust voru nokkrir sem enduðu lífið á æskuóðulunum. Allir fuglar sem hingað til hafa náð einu aldursári eru enn lifandi. Í rúmt ár hafa engin afföll orðið á fuglum sem fengu leiðarritara á árunum 2019–2021 og virðast þeir allir hafa plumað sig vel. Dánarorsök flestra sendafuglanna eru þekktar. Þannig dóu að minnsta kosti tveir úr skæri fuglaflensu en líkur eru á að þeir hafi í raun verið fjórir, einn fugl flaug á raflínu, einn dó af slysförum (drukknaði) og einn drapst úr blýeitrun en sá hafði verið að éta nýskotna grágæs.