Surtsey 60 ára

Í dag, 14. nóvember, eru 60 ár liðin frá því að ljóst var að neðansjávargos var hafið í um 18 km fjarlægð suðvestan við Heimaey og nokkrum dögum síðar hafði myndast þar myndarleg gjóskueyja sem fór ört stækkandi.

Upphaf Surtseyjarelda með sprengigosi var tilkomumikið og vegna fjarlægðar frá nærliggjandi eyjum stafaði mönnum og mannvirkjum engin hætta af gosinu. Surtseyjargosið vakti mikla athygli víða um heim, jarðvísindamenn fylgdust vel með framgangi gossins og eftir að því lauk rúmum þremur árum seinna, sáu líffræðingar einstakt tækifæri að skrá landnám lífvera og fylgjast með þróun vistkerfa á nýju landi. Vísindafólk Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur tekið þátt í Surtseyjarrannsóknum frá upphafi og innan stofnunarinnar er til mikið gagnasafn rannsókna og vöktunar í Surtsey. Öll þessi mikilvægu gögn um náttúrufar, myndun og mótun Surtseyjar frá upphafi, auk framsýni fólks að friðlýsa Surtsey árið 1965, urðu til þess að Surtsey er ein best rannsakaða eldstöð í heimi og hlaut skráningu á heimsminjaskrá UNESCO árið 2008 vegna vísindarannsókna.

Sjá nánar um rannsóknir í Surtsey