Skarfar rétta aftur úr kútnum

Talningar á dílaskarfs- og toppskarfshreiðrum vorið 2024 leiddu í ljós töluverða fjölgun hreiðra eftir mikla fækkun árið á undan. Dílaskarfshreiðrum hafði fjölgað um tæp 30% og toppskarfshreiðrum um rúmlega 42%.

Á Íslandi eru tvær tegundir skarfa, toppskarfur og dílaskarfur. Þeir eru varpfuglar, staðfuglar og veiðitegundir. Um 1–2 þúsund fuglar eru skotnir af hvorri tegund árlega. Stofnþróun tegundanna er vöktuð með ljósmyndatöku úr flugvél. Um 200 byggðir í Faxaflóa, Breiðafirði og á Ströndum eru heimsóttar í maí á hverju ári og hreiður þeirra talin.
 

Árið 2023 gengu tvær óvenju djúpar lægðir yfir vestanvert landið dagana 20.–21. og 23.–25. maí. Þær ollu djúpum öldum (sem náðu yfir 10 metra) og brimi sem eyddi heilu skarfabyggðunum sem voru áveðurs og fyrir opnu hafi. Um svipað leyti vakti það athygli að mikið magn dauðra sjófugla af ýmsum tegundum, mest af lunda, rak upp víða í Faxaflóa. Það sást hins vegar lítið af uppreknum skörfum meðal dauðu fuglanna. Í flugtalningu þann 27. maí 2023 varð fyrst ljóst að skarfar höfðu lent í ógöngum þegar lægðirnar gengu yfir 2–5 dögum áður. 

Úr flugvélinni sást að heilu byggðirnar hafði skolað burt, einkum í vörpum í utanverðum Breiðafirði og í norðanverðum Faxaflóa. Víða sáust berar klappir þar sem byggðirnar eru venjulega lýsandi hvítar, vegna uppsöfnunar á skít í kringum hreiðrin. Viðtöl við heimamenn leiddu í ljós að menn töldu þessa atburði mjög óvenjulega og að fullorðna skarfa hefði ekki verið að sjá í rekanum.

Talning skarfshreiðra í maí 2024 sýndi að þrátt fyrir að margar skarfabyggðir hefðu skolast í burtu árið 2023, þá höfðu þessir atburðir lítil varanleg áhrif á skarfastofnana. Þrátt fyrir tjón á hreiðrum, eyðingu eggja og unga, virðist sem flestir fullorðnir fuglar hafi lifað af og tekið virkan þátt í varpinu 2024.

Árið 2023 voru dílaskarfshreiður 2.727 talsins, sem er fækkun um 38,1% frá 2022, og toppskarfshreiður voru 3.419, sem er fækkun um 44,9% frá 2022. Árið 2024 voru dílaskarfahreiður hins vegar 3.835 sem er 28,9% aukning og toppskarfahreiður  5.720 sem er 42,2% aukning. Það lítur því út fyrir að áhrif óveðursins séu að jafnast út. Sú staðreynd að fáir fullorðnir skarfar fundust dauðir í vörpunum eða sjóreknir vekur vonir um að báðir skarfsstofnarnir verði fljótir að rétta úr kútnum.

Vöktun skarfa 2024
Vöktun skarfastofna | Náttúrufræðistofnun