Hrafnaþing - Viðgangur og vistfræði birkistofnsins á Skeiðarársandi

Á Hrafnaþingi miðvikudaginn 12. febrúar 2025 kl. 15:15-16:00, mun Guðrún Óskarsdóttir gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands flytja erindið „Viðgangur og vistfræði birkistofnsins á Skeiðarársandi"

Í erindinu verður fjallað um ilmbjörk (Betula pubescens ssp. tortuosa) sem nam land á Skeiðarársandi um 1990, eftir að fræ hafði dreifst um 10 km leið frá Bæjarstaðarskógi og finnst nú á >35 ferkílómetra svæði. Sjálfsáning stofna svona langt frá fræuppsprettu og á þessum stærðarskala er afar sjaldgæf og birkistofninn hefur verið uppspretta ýmissa rannsókna á sviði vistfræði. Þar á meðal er doktorsverkefni Guðrúnar, sem hún vann undir handleiðslu Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, prófessors hjá Háskóla Íslands og Kristínar Svavarsdóttur, plöntuvistfræðings hjá Landi og Skógi, en þær hafa leitt rannsóknir á stofninum frá því hans varð fyrst vart rétt fyrir aldamót. 

Útdráttur úr erindinu

Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams.

Hægt er að fylgjast með dagskrá Hrafnaþings á vef Náttúrufræðistofnunar og áhugasömum er bent á að skrá sig á póstlista á natt@natt.is.