Háseltulón
FX.11 Háseltulón
EUNIS-flokkun: X02 Saline coastal lagoons.


Lýsing
Mjög sundurleitur flokkur, en helstu einkenni eru að selta í yfirborði er töluverð, ósinn er opinn og sjávarfalla gætir að hluta. Alla jafna koma engar eða mjög litlar leirur upp úr á fjöru. Flest háseltulón eru fremur smá og grunn, þótt það sé ekki algilt. Selta í yfirborði er yfirleitt a.m.k. 15 S en í dýpri vötnum getur hún verið töluvert hærri. Tegundafjölbreytni er yfirleitt lítil miðað við sjóinn fyrir utan. Óljóst er hvort ákveðnar lífverutegundir einkenna háseltulón því þau eru mjög ólík innbyrðis og lífríki þeirra er lítt kannað. Lífríki margra háseltulóna svipar til þess sem er í vistgerðum í fjöru en önnur eru mjög tegundafá og líkjast meira strandvötnum (Agnar Ingólfsson 1990).
Fjörubeður
Klappir, stórgrýti, hnullungar, steinvölur, möl, sandur, leðja.
Fuglar
Töluvert fuglalíf, einkum endur eins og æður, hávella og toppönd. Annað fuglalíf ræðst af vistgerðum innan lónsins.
Líkar vistgerðir
Strandvötn og grýttur sandleir.
Útbreiðsla
Um allt land, síst á Suður- og Suðausturlandi.
Verndargildi
Miðlungs.

Áberandi gróður – Conspicuous vegetation | Áberandi dýr – Conspicuous animals | ||
---|---|---|---|
Klapparþang | Fucus spiralis | Hrukkubúlda | Thyasira fexuosa |
Bóluþang | Fucus vesiculosus | Burstaormar | Polychaeta |
Grænþörungsættkvísl | Ulva spp. | Fjöruflær | Gammarus spp. |

Opna í kortasjá – Open in map viewer
Heimildir
Agnar Ingólfsson 1990. Sjávarlón á Íslandi. Fjölrit nr. 21. Náttúruverndarráð. Reykjavík.