Eyðihraunavist
L6.1 Eyðihraunavist
Eunis-flokkun: H6.241 Barren Icelandic lava fields.


Lýsing
Lítt gróin, gropin hraun, frá nútíma. Hraunin eru yfirleitt hallalítil helluhraun eða apalhraun, sums staðar sand- og vikurorpin. Stöðugleiki er misjafn og ræðst af sandi og vikri á yfirborði. Gróðurþekja er breytileg en að jafnaði mjög lítil. Gróður er lágvaxinn frumherjagróður þar sem æðplöntur, mosar og fléttur hafa áþekka þekju.
Plöntur
Vistgerðin er fremur fátæk af tegundum æðplantna og mosa en frekar rík af fléttutegundum. Af æðplöntum finnst mest af blóðbergi (Thymus praecox ssp. arcticus), lambagrasi (Silene acaulis) og geldingahnappi (Armeria maritima). Algengastir mosa eru holtasóti (Andreaea rupestris), hraungambri (Racomitrium lanuginosum) og snúinskeggi (Grimmia funalis) en algengustu fléttur eru hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum), grásnuðra (Lecidea lapicida), fölvakarta (Porpidia melinodes) og landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum).
Jarðvegur
Er mjög grunnur, klapparjörð eða sandjörð með mjög lágt kolefnisinnihald og frekar hátt sýrustig.
Fuglar
Strjált og fábreytt fuglalíf, heiðlóa (Pluvialis apricaria), spói (Numenius phaeopus), steindepill (Oenanthe oenanthe) og snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) algengust.
Líkar vistgerðir
Eyðimelavist, grasmelavist og fléttuhraunavist.
Útbreiðsla
Finnst á ungum, lítt grónum hraunum og eldri hraunum þar sem gróðurframvinda er hæg vegna sandfoks.
Verndargildi
Lágt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

