Gróðureldar í Heiðmörk

Þann 4. maí 2021 kviknaði og breiddist út mikill gróðureldur í Heiðmörk. Svæðið sem brann er við Hnífhól í suðvesturhluta Heiðmerkur, milli Löngubrekkna og Hjalla, rúma tvo kílómetra norðaustur af Búrfelli. Alls urðu 56,5 ha eldinum að bráð samkvæmt nákvæmum mælingum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Gróður

Svæðið sem brann við Hnífhól er allt þurrlendi. Gamlar lúpínubreiður þöktu stærsta hluta hluta svæðisins en í þeim höfðu verið gróðursettar ýmsar trjátegundir, svo sem birki og stafafura. Gróðursetningarnar náðu til tæpra 40 ha svæðisins en rúmir 10 ha af brunna landinu voru lúpínubreiður sem ekki hafði verið gróðursett í. Töluverð sina af snarrótarpunti var einnig í lúpínunni. Þá brunnu einnig um 4 ha af náttúrulegum gömlum birkiskógi. Birkiskógaleifarnar voru gjarnan sunnan í hjöllum á svæðinu, sem liggja frá suðvestri til norðaustur, eða í þykkum gömlum gróðurtorfum á víð og dreif um hlíðarnar. Oft óx gulvíðir í jaðri birkisins og í gróðurtorfunum var einnig mosaríkur lyngmói. Tré og runnar, mosi og lyng var allt illa brunnið. Neðst í hlíðinni við Löngubrekkur var grasmói með gulvíðiflesjum sem einnig hafði brunnið illa. Svæðið var meir og minna albrunnið, þ.e. allur gróður á svæðinu brunnin til ösku og óbrunnir blettir í gróðursverðinum voru fáir.

Á myndum má sjá hversu illa svæðið var útleikið eftir brunann:

Plöntuhópar og tegundir fara misvel út úr bruna. Bruninn er eyðileggjandi afl en getur jafnframt valdið vissri endurnýjun í gróðri. Lyngtegundir eins og krækilyng, sortulyng og beitilyng fara illa í bruna en bláberjalyng sprettur aftur á móti fljótt aftur þar sem það hefur jarðrenglur sem liggja djúpt í sverðinum. Grös, starir og blómjurtir sleppa oft vel við bruna og vaxa aftur upp af rót. Fléttur fara illa út úr gróðurbruna og eru mjög lengi að vaxa aftur. Mosi fer líka oft illa, sérstaklega í þurrlendi. Tré og runnar skemmast oft mikið í bruna. Í Heiðmörk var mikill eldsmatur í trjágróðri, lúpínu og grasi. Líklegt má telja að losun gróðurhúslofttegunda hafi verið mikil við brunann.

Í þessu samhengi má nefna að í maí 2020 brann um 11 ha birkiskógur í Norðurárdal í Borgarfirði. Skógurinn í Norðurárdal var illa útleikinn í maí og gróðurskemmdir miklar. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands heimsótti skóginn aftur í ágúst sama ár og þá kom í ljós að svæðið var strax farið að jafna sig nokkuð eftir brunann. Sum birkitré höfðu ekki lifað af, hjá öðrum lifnaði teinungur út frá rót og hjá enn öðrum voru neðstu greinarnar sviðnar en efstu greinarnar lifandi.

Smádýr

Rannsóknir sem farið hafa fram á áhrifum gróðurelda á smádýr hafa sýnt að áhrifin verða að lágmarki umtalsverð. Hversu mikil fer eftir aðstæðum hverju sinni. Skiptir þar máli gróðurfarið og tíminn. Miklu máli skiptir til dæmis hvort enn sé klaki í jörð. Þegar víðfangsmiklir brunar urðu á Mýrum á Vesturlandi árið 2006 var klaki enn í jörð og náði eldur rétt að svíða yfirborð. Ári síðar mátti merkja nokkur áhrif á smádýralíf sem þó líkt og gróðurinn náði fljótlega sama horfi og ríkti fyrir brunann. Árið 2007 brann mosagróður á Miðdalsheiði.  Þar sviðnaði gróðursvörður illa. Við samanburðarrannsókn nokkrum árum síðar kom í ljós að batinn var hægur og stefndi í umtalverðar breytingar á smádýralífi. Var það tengt breyttu gróðurfari sem tók að þróast. Grös tóku að spretta í auknum mæli þar sem hægvaxta mosinn hafði sviðnað. Gróður og smádýr tengjast sterkum böndum.

Gera má ráð fyrir að bruninn í Heiðmörk muni hafa mikil áhrif á smádýralíf svæðisins. Þar brann afar fjölbreyttur gróður sem skaðaðist verulega. Vegna þess hve þurr jarðvegur var gæti svörður því hafa kolast nokkuð niður. Á þessum tíma er smádýralífið viðkvæmt, margt smádýrið enn á dvalastigi í jarðvegi jafnt fullþroska dýr, egg, lirfur og púpur. Það gefur auga leið að smádýralíf á svæðinu er afar fjölskrúðugt vegna hins ríkulega og fjölbreytta gróðurfars. Gera má ráð fyrir að smádýralíf hafi sem annað dýralíf (fuglar, mýs) orðið fyrir miklum skakkaföllum. Smádýralífið á mikið verk fyrir höndum að koma til baka, í hvaða mynd það verður endurheimt er erfitt að segja til um. Samfélag þeirra gæti tekið breytingum.

Fuglar

Bruninn í Heiðmörk var í upphafi varptíma og er hætt við að talsvert af hreiðrum þeirra fugla sem verpa snemma hafi misfarist. Algengustu fuglarnir á brunna svæðinu eru smádýraætur eins og skógarþrestir, hrossagaukar og þúfutittlingar sem verpa þar í tuga eða hundraða tali. Þessar tegundir munu eiga erfitt uppdráttar á brunna svæðinu í ár en veðurfar og þó einkum úrkoma á næstu vikum mun skera úr um það hvort eitthvað varp verði þarna í sumar.  Væntanlega hafa fuglarnir forðað sér úr brunanum og einhverjir þeirra mun leita í varp í nágrenninu. Langtímaáhrif á fuglalíf verða væntanlega óveruleg ef tekið er mið af rannsóknum á svæðinu sem brann á Mýrum 2006.

Spendýr

Hagamýs eru líklega þau spendýr sem verða fyrir mestum áhrifum vegna gróðurbruna en þær eru algengar og útbreiddar á svæðinu. Stofnar hagamúsa sveiflast eftir árstímum og eru mikil afföll yfir veturinn en minnst af músum í lok vetrar. Í maí er tímgun nýhafin og gróðurbruninn átti sér stað á þeim tíma sem músakerlingar voru nýgotnar með unga í holum sínum. Því er þeim erfiðara en karldýrunum að forða sér, nema þær séu staðsettar nærri jaðri brunasvæðisins. Ef músakerlurnar ná að forða sér undan eldinum, geta þær tímgast aftur því þær eru móttækilegar fljótlega eftir got. Talsverðan tíma getur þó tekið að finna laust svæði og gera nýja holu en kvendýrin eru heimarík og reka önnur kvendýr af sínu svæði yfir sumartímann.

Í Heiðmörk hefur verið lagt mat á þéttleika hagamúsa og talið vera um 15–20 mýs á hektara að haustlagi á svæði með álíka gróðurvistgerð og hér brann. Til að ná þeim fjölda að hausti þarf vorstofninn að vera 1–2 mýs á hektara og 2–3 kynslóðir þurfa að komast á legg yfir sumarið. Hagamýs á þessu afmarkaða svæði urðu án efa fyrir miklum skakkaföllum af völdum gróðurbrunans þetta sumarið. Áhrifin ættu þó ekki að skaða stofninn til langtíma, ef gróður og smádýralíf tekur við sér. Hinsvegar, ef áhrif gróðurbrunans eru neikvæð fyrir smádýralíf til lengri tíma, getur það hægt á landnámi og fjölgun músa á svæðinu sem brann því pöddur og lirfur þeirra eru helsta fæða hagamúsa að vorlagi.