Jarðfræðikort af Íslandi

Tímamörk
Langtímaverkefni frá 1960.
Um verkefnið – Markmið og verkþættir
Náttúrufræðistofnun gegnir þeirri lagaskyldu að vinna jarðfræðikort af Íslandi. Jarðfræðikort eru meðal annars undirstaða allra jarðfræðirannsókna, vöktunar og viðbragða við náttúruvá af ýmsu tagi, skipulagðri og ábyrgri landnýtingu og vernd jarðminja.
Síðan árið 2018 hefur megináhersla verið lögð á kortlagningu berggrunns í mælikvarða 1:100.000 en þar er um að ræða samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Að auki er unnið að jarðgrunnskortlagningu á ákveðnum svæðum í mælikvarða 1:50.000–1:100.000.
Náttúrufræðistofnun tekur þátt í samstarfsverkefnum um uppfærslu yfirlitskorta og gagnagrunna af jarðgrunni Evrópu, þar á meðal yfirlitskorti af jarðgrunni Íslands. Einnig er á stofnuninni unnið að rafrænni útgáfu jarðfræðikorta af landshlutum (1:250.000). Berggrunns- og höggunarkort í mælikvarða 1:600.000, sem taka til alls landsins, eru endurskoðuð og útgefin reglulega.
Í tengslum við rannsóknarverkefni er unnið að jarðfræðikortlagningu fyrir afmörkuð svæði í nákvæmari mælikvarða. Kortlagning lausra jarðlaga er unnin í mikilli upplausn á ákveðnum svæðum í tengslum við skriðuföll, sem er mikilvægur liður í rannsóknum og vöktun hvað varðar slysahættu og eignatjón og fyrir skipulags byggðar í landinu með tilliti til skriðufalla.
Nánari upplýsingar
Niðurstöður
Birgir V. Óskarsson, Ögmundur Erlendsson, Robert A. Askew, Árni Hjartarson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Skafti Brynjólfsson og Sveinn Jakobsson 2022. Jarðfræðikort af Vesturgosbelti. 1:100.000. Garðabær, Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og umhverfis- og auðlindaráðuneytið.
Birgir V. Óskarsson og Morten S. Riishuus 2019. Jarðfræðikort af Austurlandi. 1:100.000. Garðabær: Náttúrufræðistofnun Íslands.
Ögmundur Erlendsson, Birgir V. Óskarsson, Sigurveig Árnadóttir og Skafti Brynjólfsson 2020. Jarðfræðikort og kortlagning: framtíðarsýn. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-20003. Unnið í samvinnu við ÍSOR (ÍSOR-2019/069) fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Reykjavík: Íslenskar orkurannsóknir. https://utgafa.ni.is/skyrslur/2020/NI-20003.pdf [skoðað 9.6.2021]
Tengiliðir
Birgir Vilhelm Óskarsson jarðfræðingur (berggrunnskortlagning) og Skafti Brynjólfsson jarðfræðingur (jarðgrunnskortlagning).