Mat fugla á válista

Válistar eru opinberar skrár yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja eða eru í hættu og er ein af meginstoðum náttúruverndar í heiminum. Mat á þeim hættum sem kunna að steðja að einstökum tegundum og tillögur um verndun eru tveir aðskildir hlutir. Í válistum felst því EKKI forgangsröðun verndaraðgerða, þótt þær byggi á slíku mati. Allar tegundir eru flokkaðar eftir alþjóðlega viðurkenndu kerfi Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN). Markmið flokkunar er hættumat, reynt er að segja fyrir um líkur á því að tegund kunni að deyja út. Tegundir eru bæði metnar á heimsvísu og eins á svæðisvísu og getur þá matið náð til einstakra landa, staðbundinna stofna eða undirtegunda.

Válistamat

Í stuttu máli þá er válistamat miðað við fjóra höfuðþætti: (1) hversu algeng tegundin er, (2) útbreiðslumynstur, þ.e. hvort tegundin er mjög staðbundin eða dreifð, (3) stofnbreytingar á tilgreindu tímabili sem tekur mið af kynslóðalengd, (4) tölfræðilegri spá um stofnbreytingar í framtíðinni. Á svæðisbundnum válistum er auk þess tekið tilliti til þess hvort um einangraða stofna er að ræða og líkur metnar á landnámi út frá lífsháttum tegundar.

Tegundir sem eru metnar

Til skoðunar voru allar fuglategundir sem sést hafa hér á landi og borist hingað af eigin rammleik, alls yfir 400. Eiginlegt mat tók þó aðeins til þeirra tegunda sem hafa orpið hér samfellt síðastliðin 10 ár (81 tegund), reglulegra gesta sem viðunandi upplýsingar lágu fyrir um (6 tegundir) og fyrrum reglulegra varpfugla (4 tegundir), alls er um að ræða 91 tegund. Öllum flækingsfuglum var sleppt en þó skal samkvæmt reglum IUCN geta þeirra flækingsfugla sem eru á heimsválista, óháð stöðu þeirra hér á landi.

Heimilt er samkvæmt leiðbeiningum IUCN um svæðisbundið mat að færa þær tegundir niður um válistaflokka sem eru hér á mörkum útbreiðslu sinnar og með afar litla stofna ef líkur á landnámi teljast miklar. Þetta á t.d. við um margar þær tegundir sem byrjað hafa varp hér á síðustu árum og eru jafnframt algengir flækingsfuglar.

Af 91 tegund sem var metin er 41 á válista Náttúrufræðistofnunar 2018. Ein tegund er útdauð í heiminum, 3 tegundir eru útdauðar sem varpfuglar á Íslandi, 3 tegundir eru í bráðri hættu, 11 tegundir í hættu og 23 tegundir í nokkurri hættu. Auk þess eru 2 tegundir sem líklegt er að gætu lent á válista en gögn vantar til að meta það með vissu. Loks eru 8 tegundir í yfirvofandi hættu að lenda á válista. Þetta eru töluvert fleiri tegundir en voru á Válista 2000 (ríflega 30) en níu tegundir falla nú af válista.

Útdauður (EX)

Geirfugl er sem betur fer eina tegundin í þessum flokki líkt og á Válista 2000.

Útdauður í náttúrunni (EW)

Engin tegund, líkt og í Válista 2000.

Útdauður sem varpfugl á Íslandi (RE)

Haftyrðill, keldusvín og gráspör sem bættist í þennan hóp frá Válista 2000.

Í bráðri hættu (CR)

Þrjár tegundir eru á Válista 2018: Fjöruspói, lundi og skúmur.

Sjö tegundir voru í þessu flokki á Válista 2000: Brandönd (fellur út vegna ört vaxandi stofns), fjöruspói, gráspör (hætti varpi 2015), snæugla (færð niður um flokk vegna þess að líkur á landnámi eru taldar miklar), skutulönd (er ekki talinn reglulegur varpfugl; er á heimslista, strandtittlingur (er ekki talinn reglulegur varpfugl).

Í hættu (EN)

Ellefu tegundir eru í þessum flokki á Válista 2018: Blesgæs, duggönd, fýll, haförn, hvítmáfur, kjói, sendlingur, stuttnefja, svartbakur, teista og þórshani.

Á Válista 2000 voru fimm tegundir í þessum flokki: haförn, helsingi (fellur af válista vegna ört vaxandi stofns), húsönd, skeiðönd (færð niður um flokk vegna þess að líkur á landnámi eru taldar miklar) og þórshani.

Í nokkurri hættu (VU)

Í þessum flokki eru 23 tegundir á Válista 2018. Barrfinka, dvergmáfur, eyrugla, fálki, fjallkjói, gulönd, himbrimi, hrafn, húsönd, kría, langvía, rita, sjósvala, skeiðönd, skógarsnípa, skrofa, snjótittlingur, snæugla, stormsvala, súla, tjaldur, toppskarfur og æðarfugl.

Á Válista 2000 voru 15 tegundir í þessum flokki: Brandugla (nú færð niður um einn flokk), fálki, flórgoði (fellur af válista vegna stækkandi stofns á viðmiðunartímabili), gargönd (færð niður um einn flokk), grágæs (fellur af válista vegna þess að dregið hefur úr neikvæðri stofnþróun), gulönd, himbrimi, hrafn, hrafnsönd (fellur af válista vegna vaxandi stofns), sjósvala, skrofa, stormsvala, stuttnefja (færð upp um hættuflokk vegna neikvæðrar stofnþróunar), súla og svartbakur (færður upp um hættuflokk vegna neikvæðrar stofnþróunar).

Á Válista 2000 var þessi flokkur kallaður í yfirvofandi hættu.

Í yfirvofandi hættu (NT)

Átta tegundir eru í þessu flokki: Álka, brandugla, gargönd, grafönd, hávella, rjúpa, silfurmáfur og stelkur.

Árið 2000 voru þær þrjár: grafönd, stormmáfur (felldur út úr þessum flokki vegna vaxandi stofns) og straumönd (felld úr þessum flokki vegna breyttra viðmiða).

Gögn vantar (DD)

Tvær tegundir eru í þessum flokki: óðinshani og sílamáfur. Eingin tegund var í þessu flokki á Válista 2000.

Hvers vegna lenda tegundir á válista ?

Helstu ástæður þess að fuglategundir lenda á válista eða teljast í yfirvofandi hættu eru litlir stofnar (16 tegundir), staðbundin útbreiðsla (5 tegundir) og neikvæð stofnþróun (27 tegundir, þar af 16 eru tegundir sjófugla). Ein tegund er bæði mjög staðbundin og sýnir neikvæða stofnþróun (sjósvala).

Stór hluti íslenskra sjófuglategunda eru á válista, fjórar vegna staðbundinnar útbreiðslu (súla, skrofa, sjósvala og stormsvala) en 12 vegna hnignandi stofna frá því um síðustu aldamót. Á þetta við alla stærstu sjófuglastofnana sem jafnframt eru margir hverjir stærstu fuglastofnar landsins. Veiði og eða meðafli hér á landi og erlendis er orsök eða samverkandi þáttur hjá þriðjungi þeirra fuglategunda sem eru á válista vegna hnignandi stofna: Toppskarfur, rjúpa, teista, lundi, stuttnefja (einkum við Grænland), kjói, hvítmáfur, svartbakur og hrafn. Fjórar síðasttöldu tegundirnar eru fyrst og fremst drepnar vegna meints tjóns.