
Útbreiðsla
Spói verpur hér og hvar um norðanverða N-Ameríku, Evrópu og Asíu til Kyrrahafs. Hann er alger farfugl og fer til V-Afríku (Tómas G. Gunnarsson og Guðmundur A. Guðmundsson 2016), jafnvel í einum áfanga (Alves o.fl. 2016).
Stofnfjöldi
Spói er algengur varpfugl á Íslandi og hefur stofninn verið metinn gróflega 250.000 pör (Thorup 2006) sem er nánast það sama og nýjasta matið (256.000 pör, Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Íslenskir spóar teljast til sérstakrar deilitegundar (Numenius phaeopus islandicus) sem verpur nær öll hér á landi.
Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Spói er algengur um allt land en mest er af honum á vesturhelmingi landsins (sjá kort). Hæsti þéttleiki spóa á láglendi er á graslendi 13,5 pör/km² og í mýravistum 12,2 pör/km² (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2016). Á hálendi er mest um spóa í móavist 1 par/km². Reiknuð stofnstærð er 256.000 pör og af þeim eru 12.900 eða um 5% ofan 300 m hæðarlínu. Um 28% spóa eru innan mikilvægra fuglasvæða, flestir á Suðurlandsundirlendi, um 15% (sjá töflu).
Válistaflokkun
VU (í nokkurri hættu)
Ísland | Evrópuválisti | Heimsválisti |
---|---|---|
VU | LC | LC |
Forsendur flokkunar
Kynslóðalengd (IUCN): 7,23 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2007-2029
Spói er vaktaður á fimm stöðum á landinu sem hluti af vöktun mófugla. Þessar talningar eru á Suðurlandsundirlendinu, Mýrum í Borgarbyggð, við Markarfljót, í Þingeyjarsýslum og á Úthéraði (Pálsdóttir et al 2024, Yann Kolbeinsson o.fl. 2023, Áslaug Lárusdóttir o.fl. 2023, sjá einnig: Vöktun mófugla). Spóa hefur fjölgað lítillega í Þingeyjarsýslum um sem nemur 0,6% á ári. Á hinum fjórum svæðunum hefur spóa fækkað um 2-5% árlega. Til að reikna stofnþróun spóa yfir tímabilið var notast við vegið meðaltal úr þessum talningum þar sem árleg breyting er margfölduð með hlutfallslegum fjölda fugla sem taldir voru í upphafi. Niðurstaðan er sú að spóa fækkað að meðaltali um 2% á ári. Sé þetta framreiknað yfir viðmiðunartímabilið (2007-2029) fæst að spóa mun fækka um tæp 35% á viðmiðunartímabilinu og flokkast því sem tegund í nokkurri hættu (VU, A2ab). Orsakir fækkunar eru óþekktar en leiða má að því líkur að því að hún tengist búsvæðabreytingum en spói reiðir sig á opin búsvæði svo sem mólendi til afkomu en þau eiga víða undir högg að sækja vegna aukinna mannlegra umsvifa.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2000: Spói var ekki í hættu (LC).
Válisti 2018: Spói var ekki í hættu (LC).
Verndun
Spói er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Mikilvæg svæði
Ólíkt mörgum vaðfuglum, safnast spóinn ekki í stóra hópa. Þar af leiðandi eru engir viðkomustaðir hér á landi sem teljast alþjóðlega mikilvægir fyrir spóa.
A4 i: Evrópa/V-Afríka = 10.365 fuglar/birds; 3.455 pör/pairs (Wetlands International 2016)
B1 i: A4 i
Töflur
Reiknaður fjöldi spóa sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Numenius phaeopus within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*
Svæði Area | Svæðisnúmer Area code | Árstími Season | Fjöldi (pör) Number (pairs) | Ár Year | % af íslenskum stofni % of Icelandic popul. | Alþjóðlegt mikilvægi International importance |
---|---|---|---|---|---|---|
Borgarfjörður–Löngufjörur | FG-V_10 | B | 4.181 | 2013 | 1,6 | |
Laxárdalsheiði | VOT-V_3 | B | 3.764 | 2013 | 1,5 | |
Arnarvatnsheiði | VOT-N_1 | B | 3.323 | 2013 | 1,3 | |
Skagi | VOT-N_5 | B | 3.525 | 2013 | 1,4 | |
Melrakkaslétta | FG-N_4 | B | 7.566 | 2013 | 3,0 | |
Úthérað | VOT-A_3 | B | 2.903 | 2013 | 1,1 | |
Suðurlandsundirlendi | VOT-S_3 | B | 37.549 | 2013 | 14,7 | |
Önnur mikilvæg svæði Other important areas |
B | 8.431 | 2013 | 3,3 | ||
Alls–Total | 71.242 | 27,8 | ||||
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpubl. data |
Myndir

Heimildir
Alves, J.A, M.P. Dias, V. Méndez, B. Katrínardóttir og T.G. Gunnarsson 2016. Very rapid long-distance sea crossing by a migratory bird. Sci. Rep. 6: 38154. https://doi.org/10.1038/srep38154.
Áslaug Lárusdóttir, Erlín Emma Jóhannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Halldór Walter Stefánsson, Hálfdán Helgi Helgason, Jóhann Finnur Sigurjónsson, Kolbrún Þóra Sverrisdóttir, Kristín Ágústsdóttir og Margrét Gísladóttir (2023). Náttúrustofa Austurlands, ársskýrsla 2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://drive.google.com/file/d/1GTiIzOzIdq3ng4ZeYPCvUJDEE2pP4huw/view
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.
Pálsdóttir, A. E., Þórisson, B., & Gunnarsson, T. G. (2025). Recent population changes of common waders and passerines in Iceland’s largest lowland region. Bird Study, 1–13. https://doi.org/10.1080/00063657.2025.2450394
Thorup, O., ritstj. 2006. Breeding waders in Europe 2000. International Wader Studies 14. Thetford: International Wader Study Group. (Tölur yfir íslenska stofna byggjast á óbirtri samantekt: Guðmundur A. Guðmundsson 2002. – Estimates of breeding populations of Icelandic waders worked out for the „Breeding waders in Europe 2000” report).
Tómas G. Gunnarsson og Guðmundur A. Guðmundsson 2016. Migration and non-breeding distribution of Icelandic Whimbrels Numenius phaeopus islandicus as revealed by ringing recoveries. Wader Study 123: 44–48.
van Roomen M., S. Nagy, R. Foppen, T. Dodman, G. Citegetse og A. Ndiaye 2015. Status of coastal waterbird populations in the East Atlantic Flyway. With special attention to flyway populations making use of the Wadden Sea. Leeuwarden, Hollandi: Programme Rich Wadden Sea; Nijmegen, Hollandi: Sovon; Wageningen, Hollandi: Wetlands International; Cambridge, Englandi: BirdLife International og Wilhelmshaven, Þýskalandi: Common Wadden Sea Secretariat. http://www.waddensea-secretariat.org/
sites/default/files/downloads/status_coastal_birds_eaf_2014_1.pdf [skoðað 15.5.2017].
Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson. (2023). Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf
Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].
Höfundur
Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018
Borgný Katrínardóttir og Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025
- Tegund (Species)
- Spói (Numenius phaeopus)
English Summary
The Numenius phaeopuspopulation in Iceland is estimated 256,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 25% may nest in IBAs designated for other species, but such areas are specifically designated for this species.
Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU).