Gróðureldar við gosstöðvar við Fagradalsfjall

Gróðureldar kviknuðu víða á vestan- og sunnanverðu landinu fyrrihluta maí 2021 enda var gróður mjög þurr eftir langvarandi þurrka. Nokkuð var um gróðurelda við gosstöðvar við Fagradalsfjall en fyrst varð vart við þá í byrjun maí og jókst útbreiðsla þeirra eftir það. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands fór á vettvang þriðjudaginn 11. maí til að gera grein fyrir gróðri á svæðinu, bæði gróðri sem hafði farið undir hraun og þeim sem hafði brunnið í eldunum þegar þarna var komið.

Gróðureldar sem kviknuðu að líkindum út frá hraunjaðri í Geldingadölum
Mynd: Borgþór Magnússon

Gróðureldar sem kviknuðu að líkindum út frá hraunjaðri í Geldingadölum.

Gróður við gosstöðvarnar

Gróður við gosstöðvarnar er fremur rýr. Vesturhluti svæðisins er þó almennt betur gróinn en sá eystri. Hlíðar Geldingadala eru að mestu grónar mosum, einkum hraungambra (Racomitrium lanuginosum) en víða eru hlíðarnar nokkuð grýttar og moldarbörð í gróðurtorfum. Nokkuð er um lynggróður í mosanum, einkum krækilyng en jafnframt beitilyng og sortulyng. Sums staðar er lyngþekja allþétt og myndar lyngmóa. Á stöku stað er gróður grasgefnari þar sem er töluverð sina af blávingli, língresi og stinnastör. Á fornri hraunhettu Fagradalsfjalls eru samfelldar mosabreiður með strjálli æðplöntuþekju. Melar og skriður einkenna hlíðar og dali á svæðinu austanverðu. Í þeim er strjálingsþekja af mosagróðri og lyngi sem myndar sums staðar þéttari breiður. Í Merardölum eru gróðurtorfur í hlíðarfótum grónar lynggróðri.

Mánudaginn 10. maí 2021 var útbreiðsla hraunsins áætluð 1,78 km2. Dalbotn Geldingadala var kominn undir hraun en þar var áður grösug gróðurtorfa og töluverðar moldir allt í kring. Land sem farið var undir hraun við eldstöðvarnar þegar þarna var komið var að meirihluta lítt gróið land, melar og moldir. Um þriðjungur svæðisins var vel gróið moslendi og lyngmóar, samkvæmt gróflegri áætlun.

Á vettvangi var ekki að sjá að vöxtur væri kominn í gróður og og var hann allur mjög þurr. Helst mátti sjá að laufgun væri hafin hjá ljónslappa og músareyra en lítið bar á grasnálum í sverði.

Eldar kvikna út frá hraunrennsli og gjóskufalli

Gróðureldarnir á eldsstöðvunum fyrri hluta maí 2021 kviknuðu annars vegar út frá hraunjöðrum, þar sem hraun sótti inn í gróið land, og hins vegar út frá glóandi gjósku. Háir gosstrókar sem einkenndu eldvirknina við Fagradalsfjall ollu því að gjóska barst fyrir vindi alllangt frá gígnum. Glóandi gjóska svíður mosann þar sem hún fellur til jarðar og vindur ýfir upp glóðina sem tekur að krauma í mosanum.

Gjóskumolar í mosa uppi á Fagradalsfjalli.
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Gjóskumolar í mosa uppi á Fagradalsfjalli.

Eldur lætur lítið yfir sér í mosa en logar glatt í lyngi og grösum
Mynd: Borgþór Magnússon

Eldur lætur lítið yfir sér í mosa en logar glatt í lyngi og grösum.

Eldur á gosstöðvum við Fagradalsfjall lætur lítið yfir sér í mosa en logar glatt í lyngi og grösum
Mynd: Borgþór Magnússon

Eldur lætur lítið yfir sér í mosa en logar glatt í lyngi og grösum

Umfang eldanna

Á vettvangi var ljóst að umfang eldanna var umtalsvert. Mestir voru þeir í hlíðum Geldingadala vestanverðum og uppi á Fagradalsfjalli en þar er gróðurþekjan þéttust. Eldar sem kviknuðu út frá hraunjaðri voru bundnir við útbreiðslu hraunsins en eldar sem kviknuðu út frá gjósku voru með blettótta dreifingu og logaði bæði í stökum blettum og samfelldum svæðum. Ekki bar mikið á logum í mosanum en glóð var í honum og mest þar sem vindur blés. Eldsmatur var meiri í lyngi og grösum og blossuðu þar upp eldtungur. Á albrunnu landi var aðeins eftir duftkenndur salli ofan á moldinni en víða brann aðeins efsta lag mosans og mosastönglar þöktu enn moldina undir. Grösugar lautir stóðu sums staðar eftir óbrunnar en líklega varnaði meiri raki og skjól því að eldur næði sér þar upp.

Ástæða þótti til að mæla flatarmál lands sem hafði brunnið í gróðureldunum við gosstöðvarnar og svæðið kortlagt af loftmynd Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 10. maí 2021. Áætlað flatarmál brunnins lands reyndist vera 25 hektarar. Útbreiðsla brunnins lands sýndi að eldar sem kviknuðu út frá hraunrennsli voru einkum í Geldingadölum og Merardölum. Eldar sem kviknuðu út frá heitum gjóskumolum voru mun útbreiddari og stakir brunablettir bentu til þess að kviknað hefði í út frá loftbornum og glóandi gjóskumolum. Þar sem vindur náði að ýfa upp eldinn höfðu brunablettirnir stækkað og runnið saman þar sem þeir voru þéttastir.

Sem fyrr segir hafði land brunnið í hlíðum Geldingadala að vestanverðu, sem og í óbrynnishólma næst eldgígnum. Víðtækustu eldarnir sem brunnu þann 11. maí voru hins vegar á mosabreiðunum uppi á flötum hraunskildi Fagradalsfjalls í allt að 1.000 metra fjarlægð frá virka gígnum. Bentu vettvangsathuganir til þess að eldarnir væru í sókn og að mun meira land hefði brunnið samanborið við loftmyndina tekna deginum áður. Því var flatarmál brunnins lands endurmetið af nýrri loftmynd stofnunarinnar frá 18. maí. Höfðu 8,5 hektarar lands brunnið til viðbótar fyrra mati en hraunjaðar jafnframt hulið um 2 hektara. Brunnið land utan hrauns var því áætlað 31 hektari.

Kort af gróðueldum á gosstöðvum við Fagradalsfjall 10. maí 2021
Mynd: Hans H. Hansen

Hraunbreiðan þann 10. maí 2021 en þá loguðu enn gróðureldar. Brunnið land er hér sýnt með rauðum lit, um 25 ha.

Kort sem sýnir gróðurelda við Fagradalsfjall 18. maí 2021
Mynd: Hans H. Hansen

Brunnið land var endurmetið af loftmynd frá 18. maí sem sýndi að 8,5 ha til viðbótar hefðu brunnið. Alls höfðu þvi eldar sviðið gróður á um 31 ha lands utan hins nýja hrauns.

Ljóst er að talsverður eldsmatur er í gróðri við gosstöðvarnar þótt rýr sé. Gróft mat á vettvangi bendir til þess að efsti hluti mosaþembunnar brenni en raki frá jarðvegi ver neðri hluta mosans fyrir bruna. Áætluð þyngd efstu 5 cm mosaþembunnar með strjálingi af æðplöntum er um 1 kg af þurrefni á fermetra. Fram að 18. maí, þegar eldar höfðu brunnið á 33,5 ha lands, má því áætla gróflega að um 335 tonn af gróðri hafi brunnið í eldunum.

Gróðureldar við Fagradalsfjall. Efsta lag mosans brann en neðri hluti mosastönglanna var sums staðar óbrunninn.
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Efsta lag mosans brann en neðri hluti mosastönglanna var sums staðar óbrunninn.

Brunnar hlíðar Geldingadala 11. maí 2021
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Brunnar hlíðar Geldingadala.

Brunasvæðið efst á Fagradalsfjalli 11. maí 2021
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Brunasvæðið efst á Fagradalsfjalli.

Óbrunnið land efst á Fagradalsfjalli
Mynd: Borgþór Magnússon

Óbrunnið land efst á Fagradalsfjalli.

Brunablettir á Fagradalsfjalli höfðu blettótta dreifingu en runnu saman þar sem skammt var á milli þeirra.
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Brunablettir á Fagradalsfjalli höfðu blettótta dreifingu en runnu saman þar sem skammt var á milli þeirra.

Vindur ýfir upp eld á gosstöðvum við Fagradalsfjall og trekkir niður í Geldingadali
Mynd: Borgþór Magnússon

Vindur ýfir upp eld og trekkir niður í Geldingadali.

Hvernig bregst vistkerfið við brunanum

Sá gróður sem brunnið hafði umhverfis gosstöðvarnar þann 11. maí 2021 var mestmegnis hraungambri með fáum tegundum æðplantna sem uxu strjált í mosabreiðunni. Gera má ráð fyrir að það taki svæðið langan tíma að jafna sig þannig að gróður færist í fyrra horf. Gróður á svæðinu er nokkuð áþekkur gróðri á Miðdalsheiði en þar brann mosaþemba árið 2007. Rannsóknir á áhrifum brunans þar sýna að hraungambri vex mjög seint upp aftur en æðplöntur sem hafa vaxtarsprota sína neðanjarðar eða í sverði vaxa upp að nýju. Eru það einkum graskenndar tegundir, svo sem týtulíngresi, blávingull, stinnastör og móasef en þær tegundir finnast einnig í moslendi við eldstöðvarnar við Fagradalsfjall. Rannsóknirnar á Miðdalsheiði sýndu jafnframt að lyngtegundir sem hafa brum á vaxtarsprotum ofanjarðar, svo sem krækilyng og holtasóley sem báðar finnast við eldstöðvarnar, fara verr út úr bruna (Járngerður Grétarsdóttir 2009, 2013). Smádýralíf var sömuleiðis kannað á brunna svæðinu á Miðdalsheiði og kom í ljós að miklar breytingar urðu á því (Matthías Svavar Alfreðsson 2016).

Áhrif gróðurelda eru mismikil eftir umfangi þeirra, hversu djúpt hitinn nær niður í svörðinn og vistkerfum. Áhrif gróðurelda á mosaþembu gefa til kynna að þau séu langvarandi og að í raun verði til annars konar gróðurlendi í kjölfarið. Í votlendi og graslendi virðast áhrifin hins vegar skammvinnari, en þar nær gróður sér tiltölulega fljótt eins og kom í ljós eftir rannsóknir á brunanum á Mýrum 2006 (Náttúrufræðistofnun Íslands 2006, Járngerður Grétarsdóttir 2013). Í skóglendi eru áhrifin meiri vegna skemmda á trjám og runnum en engu að síður verður mikil endurvöxtur af vissum tegundum og tegundahópum. Slíkt mátti til að mynda sjá eftir brunann í Norðurárdal 2020.  Lauslegur samanburður á misgömlum loftmyndum gefur til kynna að þar sem mýrlendi, graslendi, lúpína, kjarrlendi og lynggróður hefur brunnið hefur landið gróið tiltölulega fljótt og náð fyrri svip (Gróðureldar). Hins vegar má enn merkja á loftmyndum, 11–14 árum síðar, þau svæði þar sem mosaþemba brann á Miðdalsheiði árið 2007 og við Helgafell 2009. Því má gera ráð fyrir að gróðureldarnir við gosstöðvarnar við Fagradalsfjall muni breyta gróðursamsetningu, sem og öðrum þáttum vistkerfisins, til langframa.

Brunasvæðið á Miðdalsheiði þann 13. maí 2021
Mynd: Rannveig Thoroddsen

Brunasvæðið á Miðdalsheiði þann 13. maí 2021. Greinileg skil eru enn, 14 árum eftir brunann, á milli óbrunnu mosaþembunnar (til hægri) og brunnins lands (til vinstri).

Er ástæða til að bregðast við?

Umfang gróðureldanna við gosstöðvarnar var orðið umtalsvert 18. maí 2021 en þá höfðu að lágmarki 33,5 ha lands brunnið. Er þetta stærsti bruni í mosaþembu hér á landi svo að vitað sé. Til samanburðar reyndist mosabruninn á Miðdalsheiði árið 2007 vera 8,9 hektarar og 0,5 hektarar við Helgafell árið 2009. Bruni í skóglendi í Heiðmörk í byrjun maí 2021 var 56 hektarar. Gera má ráð fyrir að eldar við gosstöðvarnar haldi áfram að breiða úr sér í maí vegna þurrviðris og vinda. Víðáttumiklar og heilar mosaþembur uppi á Fagradalsfjalli eru þá í talsverðri hættu.

Þótt gosstöðvarnar séu ekki beint í alfaraleið þá fór fjöldi fólks að sækja þangað á degi hverjum frá því að gos hófst þann 19. mars 2021, til að upplifa magnað sjónarspil eldgossins við Fagradalsfjall. Þegar starfsmenn stofnunarinnar voru við athuganir sínar þann 11. maí lagði reyk frá gróðureldunum yfir gönguleiðina. Önnur fáfarnari gönguleið liggur um mosabreiðurnar ofan á Fagradalsfjalli og loguðu þar miklir eldar þennan dag. Þrátt fyrir það voru gosþyrstir ferðamenn þar á ferð. Skaðsamar lofttegundir eru í reyk frá gróðureldum sem kom glögglega í ljós á mæli starfsmanna stofnunarinnar er CO gildi mældist 20 ppm í reykjarstrókunum. Þá eru og þéttbýli í nágrenninu sem geta fundið fyrir mengun af völdum gróðurelda sem og sjálfra jarðeldanna.

Helgina 14.–16. maí 2021 rigndi og snjóaði á suðvesturhorni landsins og slokknuðu þá gróðureldar við gosstöðvarnar. Dagana 21.-23. maí kviknuðu eldar að nýju út frá virkum hraunjöðrum ofan Nátthaga og víðar en er rigna tók 24. maí kulnuðu þeir. Náttúrufræðistofnun Íslands mun fylgjast áfram með svæðinu, hvort eldar taki sig upp að nýju og endurmetur útbreiðslu brunnins lands. Ljóst er að töluvert er í húfi fyrir vistkerfi svæðisins, sem og þá sem um svæðið fara og íhuga þarf hvort aðgerða sé þörf.

Á gosstöðvum við Fagradalsfjall. Grösugir bollar stóðu sums staðar eftir óbrunnir
Mynd: Rannveig Thoroddsen

Grösugir bollar stóðu sums staðar eftir óbrunnir.

Hárdepla í óbrunnum grasmóa við Fagradalsfjall
Mynd: Olga Kolbrún Vilmundardóttir

Hárdepla í óbrunnum grasmóa.

Brunasvæðið á Gönguleið B. Mikinn reyk lagði yfir leiðina. Mosi hefur eyðst á gönguleiðinni en það kom þó ekki í veg fyrir að eldurinn færðist áfram yfir stíginn undan vindi.
Mynd: Borgþór Magnússon

Brunasvæðið á Gönguleið B. Mikinn reyk lagði yfir leiðina.

Við gönguleið B á gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Mosi hefur eyðst á gönguleiðinni en eldurinn færðist áfram yfir stíginn undan vindi.
Mynd: Rannveig Thoroddsen

Mosi hefur eyðst á gönguleiðinni en það kom þó ekki í veg fyrir að eldurinn færðist áfram yfir stíginn undan vindi.

Fáheyrðir eldar hér á landi

Gróðureldarnir við eldgosið við Fagradalsfjall eru nokkuð sérstakir. Fremur fáheyrt er að eldgos valdi gróðureldum hér á landi en eldvirkni þarf að fara saman við þurrkatíð og snjóleysi, helst áður en gróður tekur að vaxa að sumri, en sömuleiðis þarf að gjósa í nálægð við gróið land. Í raun eru virkustu eldfjöll hérlendis flest nokkuð afskekkt, jafnvel hulin jökli og lítið um eldsmat nærri þeim.

Í samantekt frásagna af eldgosum í Heklu (Sigurður Þórarinsson 1968) er þess getið að vikurfall í gosinu sem hófst í júlí árið 1300 hafi brennt torfþök af húsum í Næfurholti. Í eldgosinu sem hófst í febrúar árið 1693 er þess getið að glóandi steinar hafi fallið tvær bæjarleiðir frá fjallinu og sviðið grasið næst þeim. Að öðru leyti er gróðurelda lítt getið í eldgosum.

Ekki var þó lagst djúpt í heimildir í þessum skrifum til að leita uppi frásagnir af gróðureldum í eldgosum.

Heimildir

Járngerður Grétarsdóttir 2009. Mosaeldar á Miðdalsheiði sumarið 2007: gróðurathuganir í kjölfar brunans. Í Fræðaþing Landbúnaðarins 2009, bls. 443–447. Reykjavík: Bændasamtök Íslands.

Járngerður Grétarsdóttir 2013. Gróðurfar á Mýrum fimm sumrum eftir bruna og samanburður við bruna í mosaþembu sumarið eftir bruna. Veggspjald kynnt á Landsýn, vísindaþingi landbúnaðarins, 8. mars 2013, Hvanneyri.

Jón Trausti 1965. Sögur frá Skaftáreldi, bls. 154. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar. Tekið af vefsíðunni Eldsveitir-Skaftáreldar 1783. https://eldsveitir.is/2020/01/10/skaftareldar/ [skoðað 14.5.2021]

Matthías Svavar Alfreðsson 2016. Mosabruninn á Miðdalsheiði 2007: Áhrif hans á smádýr. Meistararitgerð við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. http://hdl.handle.net/1946/26190 [skoðað 17.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands. Gróðureldar. https://www.ni.is/greinar/grodureldar [skoðað 14.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2007. Tæpir 9 hektarar brunnu á Miðdalsheiði. https://www.ni.is/node/924 [skoðað 14.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2009. Mosabruninn við Helgafell. https://www.ni.is/node/1042 [skoðað 14.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2020. Gróðureldar í Norðurárdal. https://www.ni.is/greinar/grodureldar-i-nordurardal [skoðað 14.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands 2021. Gróðureldar í Heiðmörk. https://www.ni.is/greinar/grodureldar-i-heidmork [skoðað 14.5.2021]

Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs og Landbúnaðarháskóli Íslands 2007. Mýraeldar 2006: fyrstu niðurstöður rannsókna á sinueldunum og áhrifum þeirra á lífríki. https://utgafa.ni.is/skyrslur/2007/Myrar_Kynning.pdf [skoðað 14.5.2021]

Sigurður Þórarinsson 1968. Heklueldar. Reykjavík: Sögufélagið.