Stelkur (Tringa totanus)

Útbreiðsla

Stelkur er varpfugl í Evrópu og Asíu austur til Kína. Er hér algengur og útbreiddur varpfugl á láglendi. Íslenskir fuglar teljast til deilitegundarinnar T.t. robusta sem verpur nær öll hér á landi.

Stofnfjöldi

Stofninn er talinn um 75.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2016). Eldra og grófara mat er 140 þúsund pör (Thorup 2006). Stelkur er svo til alger farfugl og hefur vetursetu í löndunum umhverfis Norðursjó. Samkvæmt vetrartalningum í Evrópu hefur stofninn minnkað um 1% á ári frá 1988 (van Roomen o.fl. 2015).

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Stelkur er eindreginn láglendisfugl (sjá kort 1) sem verpur þéttast í ræktarlandi, 10,8 pör/km² og graslendi, 8,6 pör/km² (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2016). Reiknuð stofnstærð er 75.000 pör og reiknast aðeins rúm 100 pör ofan 300 m hæðarlínu. Graslendisvistir á láglendi eru mikilvægastar fyrir stelka en 25.000 pör reiknast í því vistlendi. Stelkur er sá mófugl sem hefur sterkasta tengingu við landbúnaðarsvæði. Mest er af stelkum á Suðurlandsundirlendinu eða 16.100 pör, 21% stofns, en alls eru a.m.k. 31% stofnsins innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu).

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU VU LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 5,78 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2007-2024

Stelkur er talinn sem hluti af vöktun mófugla á nokkrum svæðum á landinu en fyrstu talningarnar hófust árið 2006. Talningar frá Suðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi sýna fækkun á bilinu 20-60% eða 2-6% árlega fækkun (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023, Áslaug Lárusdóttir o.fl. 2023, Pálsdóttir et al. 2024). Sömu sögu er að segja úr vetrarfuglatalningum en vísitalan sýnir rúmlegar 40% fækkun (sjá graf). Þó virðist stelk hafa fjölgað á Mýrum í Borgarbyggð og fjöldinn á talningasvæði við Markarfljót hefur verið nokkuð stöðugur (Sjá: Vöktun mófugla).Til að reikna stofnþróun stelks yfir tímabilið var notast við vegið meðaltal úr fyrrnefndum talningum. Þá var árleg breyting margfölduð með hlutfallslegum fjölda fugla sem taldir voru á því svæði í upphafi og heildarbreyting á landsvísu reiknuð í kjölfarið. Í ljósi mikilvægis Suðurlandsundirlendis fyrir stelk (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2016)  fengu þær talningar (Suðurland og Markarfljót) tvöfalt vægi á við hinar. Sýndu þessir útreikningar að stelk hefur fækkað um 3% á ári að meðaltali sem myndi samsvara >40% fækkun yfir viðmiðunartímabilið (2007-2024). Stelkur er því flokkaður sem tegund í nokkurri hættu (VU, A2ab). 

Viðmið IUCN: VU, A2ab

A2. Fækkun í stofni ≥30% á síðustu 10 árum eða síðustu þremur kynslóðum, hvort sem er lengra, þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt:

(a) Beinni athugun

(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Stelkur var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Stelkur var metinn í yfirvofandi hættu (NT).

Verndun

Stelkur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

Engar vetrarstöðvar hér á landi teljast alþjóðlega mikilvægar fyrir stelk en nokkrir viðkomustaðir kunna að ná tölulegum viðmiðum. Í Skarðsfirði töldust t.d. allt að 6.000 fuglar vorið 1988 (Thiedemann 1990) og á leirum í Andakíl voru um 2.500 fuglar í júlí 2001 (Jóhann Óli Hilmarsson, óbirt heimild) (sjá kort 2).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa = 10.590 fuglar/birds; 3.530 pör/pairs ­(Wetlands International 2016)

B1 i: Ísland/Færeyjar = 2.855 fuglar/birds; 952 pör/pairs (Wetlands International 2016)

Töflur

Reiknaður fjöldi stelka sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Tringa totanus within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 1.280 2013 1,7  
Melrakkaslétta  FG-N_4 B 1.120 2013 1,5  
Úthérað VOT-A_3 B 798 2013 1,1  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 16.104 2013 21,3  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 4.233 2013 5,6  
Alls–Total     23.535   31,2  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn

Myndir

Heimildir

Áslaug Lárusdóttir, Erlín Emma Jóhannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Halldór Walter Stefánsson, Hálfdán Helgi Helgason, Jóhann Finnur Sigurjónsson, Kolbrún Þóra Sverrisdóttir, Kristín Ágústsdóttir og Margrét Gísladóttir (2023). Náttúrustofa Austurlands, ársskýrsla 2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://drive.google.com/file/d/1GTiIzOzIdq3ng4ZeYPCvUJDEE2pP4huw/view

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Pálsdóttir, A. E., Þórisson, B., & Gunnarsson, T. G. (2025). Recent population changes of common waders and passerines in Iceland’s largest lowland region. Bird Study, 1–13. https://doi.org/10.1080/00063657.2025.2450394

Thiedemann, R. 1990. Untersuchungen zum Frühjahrsdurchzug der Limikolen (Charadriiformes) in Südöst-Island. Christian-Albrechts Univ. Kiel, Diplomarbeit.

Thorup, O., ritstj. 2006. Breeding waders in Europe 2000. International Wader Studies 14. Thetford: International Wader Study Group. (Tölur yfir íslenska stofna byggjast á óbirtri samantekt: Guðmundur A. Guðmundsson 2002. – Estimates of breeding populations of Icelandic waders worked out for the „Breeding waders in Europe 2000” report).

van Roomen M., S. Nagy, R. Foppen, T. Dodman, G. Citegetse og A. Ndiaye 2015. Status of coastal waterbird populations in the East Atlantic Flyway. With special attention to flyway populations making use of the Wadden Sea. Leeuwarden, Hollandi: Programme Rich Wadden Sea; Nijmegen, Hollandi: Sovon; Wageningen, Hollandi: Wetlands International; Cambridge, Englandi: BirdLife International og Wilhelmshaven, Þýskalandi: Common Wadden Sea Secretariat. http://www.waddensea-secretariat.org/sites/default/files/downloads/status_coastal_birds_eaf_2014_1.pdf [skoðað 15.5.2017].

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson. (2023). Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search[skoðað 26. nóvember 2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Stelkur (Tringa totanus)

English Summary

The Tringa totanus population in Iceland is estimated 75,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 31% may nest in IBAs designated for other species. No such areas are specifically designated for this species, but two staging sites are close to meeting the criteria.

Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU).