Fjara

Fjara er sá hluti af búsvæði sjávar, þar sem fullsaltur (>30 S) eða ísaltur sjór (0,5–30 S) flæðir yfir land á flóði eða í brimi. Við skjólsæla strönd takmarkast fjara að mestu við mörk sjávarfalla en við brimasama strönd, þar sem sjór gengur mismikið yfir land í hvassviðri, geta efri mörk fjörunnar náð umtalsvert ofar en efstu flóðamörk og neðri mörkin jafnframt staðið nokkuð ofan við neðstu fjörumörk. Fjöru tilheyra því saltir og ísaltir pollar ofan stórstraumsflóðmarka, ásamt brimúðabelti þar sem fjörusverta vex. Breidd eða umfang fjöru á hverjum stað ræðst því af hæðarmun flóðs og fjöru, auk brimasemi og landhalla. Flatarmál fjöru á Íslandi er metið um 1008 km2 og eru eyjar og sker þá meðtalin, auk fjörukamba sem alla jafna eru mjóar landræmur ofan við efstu flóðamörk þar sem áhrif sjávar eru afgerandi.

Það hversu oft og lengi hinir ýmsu hlutar fjöru eru undir sjó eða á þurru, hefur mótandi áhrif á lífríkið. Neðri hluti fjöru er oftar og lengur á kafi en allra efstu svæðin og um miðbikið er ræma sem flæðir á og af í öllum sjávarföllum. Fjara helst að jafnaði lengur rök þar sem brimasamt er. Fíngerður sandur heldur betur í sér raka en gróf möl og sjór rennur hraðar af fjöru eftir því sem halli hennar er meiri. Á fjöru getur sjór setið eftir í dældum, gjótum og skorningum, og raki helst lengur í þangi vöxnum fjörum en á beru grjóti. Þar sem brim er mikið eru flestar lífverur fastar við botn, en þó geta hreyfanleg dýr þrifist í skjóli undir þanginu. Því minna brim, þeim mun meira er um hreyfanleg dýr í fjörunni. Aðrir eðlisþættir, eins og selta, hitastig sjávar og hvort fjara veit móti sól eða er skuggsæl, hafa einnig áhrif á tegundasamfélög í fjörum.

Við flokkun og kortlagningu fjöruvistgerða er tekið mið af EUNIS-flokkunarkerfinu eins og kostur er og sömuleiðis af gögnum og flokkun Dr. Agnars Ingólfssonar. Efstu flokkar EUNIS-kerfisins miðast við gerð fjörubeðs (undirlags), brimasemi, hitastig sjávar, seltu og loftslag en þegar komið er dýpra í flokkunina er tekið mið af tegundasamsetningu lífríkisins, þ.e. ríkjandi gróðri og dýralífi. Íslenskar fjörur eru flokkaðar í 24 misjafnlega víðtækar vistgerðir þar sem segja má að fjaran sjálf sé fyrsta stig flokkunarinnar. Á öðru stigi eru fjörur flokkaðar sem grýttar fjörur eða setfjörur,  sem síðan skiptast frekar í enn fleiri undirflokka.

Staðreyndasíður

Á staðreyndasíðum vistgerða í fjöru er stutt og greinargóð lýsing á hverri vistgerð, listi yfir einkennandi tegundir ásamt tveimur ljósmyndum. Útbreiðsla vistgerða er sýnd á mjög grófu korti (10×10 km reitakorti) en mun ítarlegri kort eru aðgengileg í kortasjá.

F1 Grýttar fjörur
F1.1 Hrúðurkarlafjörur
F1.2 Brimasamar hnullungafjörur
F1.3 Þangfjörur
F1.31    Klóþangsfjörur
F1.32    Bóluþangsfjörur
F1.33    Skúfþangsfjörur
F1.34    Sagþangsfjörur
F1.35    Þangklungur
F1.35.1       Klóþangsklungur
F1.35.2       Bóluþangsklungur
F2 Setfjörur
F2.1 Líflitlar sandfjörur
F2.11    Brimasamar sandfjörur
F2.2 Óseyrar
F2.21    Kræklinga- og sölvaóseyrar
F2.3 Leirur
F2.31    Sandmaðksleirur
F2.32    Kræklingaleirur
F2.33    Skeraleirur
F2.34    Gulþörungaleirur
F2.35    Marhálmsgræður
F2.4 Grýttur sandleir
F2.5 Fjörumór
FX Sérstæð fjörusvæði
FX.1 Sjávarlón
FX.11    Háseltulón
FX.12    Leirulón
FX.2 Fjörupollar
FX.3 Árósar

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |