Snæfellsnes

Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða og fugla.

Mörk

Strandlengjan frá Sölvahamri og Arnarstapa að Rifi. Inn til landsins afmarkast við Sandahraun, Bárðarkistu, austur fyrir Snæfellsjökul og til strandar vestan Háahrauns.

Lýsing

Strönd Snæfellsnes er fjölbreytt þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur og sjávarhamrar. Við Hellnar er fjörubeðurinn fremur grófur og brimasemi nokkur og við Öndverðarnes er fjörubeðurinn áberandi grýttur með glufóttum hraunklöppum og brimasemi er talsverð eða mikil. Láglendið er að mestu hulið sæmilega grónum hraunum og um miðbikið rísa fjöll og ber þar mest á Snæfellsnesjökli. Vinsælt útivistarsvæði og sem áfangastaður ferðamanna. Lítils háttar búfjárbeit og æðardúntekja. Byggðakjarnar eru á Hellissandi og Rifi með tilheyrandi starfsemi og talsvert er um orlofshús, t.d. á Hellnum og Arnarstapa þar sem einnig er mikið notuð smábátahöfn.

Forsendur fyrir vali

Á tveimur fjöruköflum er fjölbreytt og sérstætt lífríki. Við Hellnar er fjaran rík af fjörupollum með fjölbreyttu lífríki og áberandi klóþangsfjöru. Við Öndverðarnes er strandlengjan rík af skjólsælum glufum, skorum og fjörupollum sem fóstra sérstætt lífríki, þrátt fyrir að ríkjandi vistgerðir séu brimasamar hnullunga- og hrúðurkarlafjörur. Töluverðar sjófuglabyggðir eru á svæðinu og nær kríuvarpið alþjóðlegum verndarviðmiðum.

Vistgerðir

Vistgerð km2 Hlutfall af heildarflatarmáli (%)
Fjara
0,51
1
Sérstök fjörusvæði
0,14
1

Fuglar - Sjófuglabyggðir

Nafn Árstími Fjöldi Ár Hlutfall af íslenskum stofni (%)
Kría (Sterna paradisaea) Varp
12500
2016
6,0

Ógnir

Mikil og vaxandi ferðamennska, uppbygging í þéttbýli, áætlanir um nýtingu vindorku, mengun tengd hafnarstarfsemi  og skipaumferð. Bílaumferð í gegnum þétt varpsvæði kríu. Vaxandi útbreiðsla lúpínu.

Aðgerðir til verndar

Svæðið er friðlýst að miklum hluta; þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 1999 og eins er fjaran milli Hellna og Arnarstapa friðlýst frá 1979. Tryggja þarf verndun kríuvarps milli Hellissands og Rifs og takmarka frekari landfyllingar og rask í fjöru. Stýra betur umferð ferðafólks og styrkja almennt vernd í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Ströndin við Stapa og Hellna Friðland
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull Þjóðgarður

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05 Síðast uppfært: 2020-05-26

Size

184,3 km2
Hlutfall land 93%
Hlutfall sjór 4%
Hlutfall strönd 2%