Ferðir og vetrarstöðvar

Árstíðaskipti eru mjög eindregin á Íslandi eins og víðast hvar á norðlægum slóðum. Langflestar tegundir yfirgefa því varpstöðvarnar yfir veturinn. Helstu undantekningar eru óðalsfuglar eins og haförn og fálki en pörin halda sig yfirleitt á óðalinu árið um kring. Ýmsir fuglar flytja sig ofan af landi í fjörur og á grunnsævi eða að ám og vötnum.

Meirihluti íslenskra varpfugla, 47 tegundir, eru farfuglar. Af þeim eru 25 tegundir sem teljast farfuglar að öllu leyti en 22 tegundir að mestu leyti. Þessir fuglar yfirgefa landið síðsumars eða á haustin og dvelja vetrarlangt í öðrum löndum eða á úthafinu fjarri Íslandsströndum. Aðrar tegundir eru staðfuglar og þreyja hér veturinn að öllu leyti (24 tegundir) eða mestu leyti (10 tegundir).

Staðfuglar

Um 34 tegundir íslenskra varpfugla eru staðfuglar, í mismiklum mæli þó. Þær tegundir sem eru staðfuglar að mestu eða öllu leyti og sjást yfirleitt í öllum landshlutum á veturna, eins og æðarfugl, straumönd og snjótittlingur. Þær tegundir sem eru að mestu farfuglar en dvelja þó hér að einhverju leyti á veturna eru oftast nær algengastar þar sem vetur eru mildari, það er sunnanlands og vestan, eins og rauðhöfði og tjaldur. Auk íslenskra varpfugla sjást hér nokkrar tegundir reglulegra vetrargesta, eins og bjartmáfur og tildra, sem koma frá Grænlandi og Norðaustur-Kanada. Tildra er þó fyrst og fremst fargestur vor og haust.

Að jafnaði sjást um og yfir 80 tegundir í vetrarfuglatalningum sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur staðið fyrir frá 1952. Hátt í 140 tegundir hafa reyndar sést í þessum talningum en aðeins 40–50 eru eiginlegir vetrarfuglar. Auk þeirra tegunda sem nefndar eru hér fyrir ofan má nefna dílaskarf, glókoll, gulönd, hávellu, hrafn, húsdúfu, hvítmáf, músarrindil, silfurmáf, stara, stokkönd, svartbak, svartþröst, teistu, toppönd og toppskarf.

Gróflega áætlað má ætla að hér dvelji að jafnaði um 2 milljónir fugla yfir háveturinn  og er þá átt við þær tegundir sem bundnar eru við land, fjöru og grunnsævi. Þetta eru aðallega æðarfuglar (um 850 þúsund), snjótittlingar (yfir 300 þúsund) og rjúpur (afar sveiflóttur stofn en oft mörg hundruð þúsund fuglar). Mun fleiri fuglar geta verið á hafinu umhverfis landið, þ.e. í íslensku efnahagslögunni. Þetta eru tegundir eins og fýll, rita og ýmsar tegundir svartfugla en stofnar þeirra eru hver um sig milljónir einstaklinga og eru það bæði islenskir varpfuglar og eins annars staðar frá.

Farfuglar

Meirihluti íslenskra varpfugla eru farfuglar, sumir þó aðeins að hluta til. Vetrarstöðvar flestra tegunda eru í Vestur-Evrópu og má þar nefna margar endur, eins og duggönd og vaðfugla á borð við heiðlóu. Nokkrar tegundir fara til Afríku, eins og spói, og aðrar að ströndum Grænlands og Norður-Ameríku. Loks fara nokkrar tegundir sjófugla til suðurhvels, eins og skrofa og kría. Sumir farfuglar dvelja hér aðeins í 2–4 mánuði að jafnaði eins og óðinshani og kría en aðrar hálft árið eins og heiðlóa og sílamáfur.