Svæðið er tilnefnt vegna fjöruvistgerða, fugla og sela.

Mörk
Hvalfjörður ásamt hólmum og fjörum, frá botni og út að Grundartanga að norðan og Hvalfjarðareyrar að sunnan. Svæðið nær jafnframt yfir Andríðsey, Eyjasker og Nónsker með 1 km jaðarsvæði til sjávar.
Lýsing
Fremur djúpur fjörður, sem gengur inn af Faxaflóa, með lífríkum grunnum vogum og víðáttumiklum leirum. Brimasemi á svæðinu er lítil inn eftir firðinum frá Hvaleyri í suðri að Saurbæjarvík í norðri, en þar fyrir vestan er brimasemin meiri. Á svæðinu er stunduð útivist. Fjaran við Fossá er vinsæl til kræklingatínslu, æðardúntekja er víða og landbúnaður á nærliggjandi jörðum. Mikil sand- og malartekja er yst og lítils háttar fiskveiðar. Verksmiðjur eru við mörk svæðisins á Grundartanga og vaxandi byggð sumarbústaða og heilsárhúsa er við sunnanverðan Laxárvog.
Forsendur fyrir vali
Fjörulengjan sem heild skartar mjög fjölbreytilegum vistgerðum, einkum kræklingaleirum ásamt allstórri kræklinga- og sölvaóseyri við Fossá. Mjög víða eru tiltölulega stórar skera- og sandmaðksleirur.
Mikið fuglalíf er á svæðinu árið um kring og telst það alþjóðlega mikilvægt fyrir fargestina margæs og rauðbrysting. Hið sama á við um vetrargestina flórgoða og sendling. Eins er mikið af tjaldi allt árið, einkum þó á vetrum. Svæðið telst mikilvægt fyrir viðgang landselsstofnsins en látur eru bæði innan Hvalfjarðar og við mynni hans með allt að 9,5% allra landsela Faxaflóa. Þar hafa verið látur með yfir 100 landselum en þeim hefur fækkað á undanförnum árum.
Vistgerðir
Vistgerð | km2 | Hlutfall af heildarflatarmáli (%) | |
---|---|---|---|
Fjara | 0,66
|
7 | |
Fjara | 0,12
|
22 | |
Fjara | 3,53
|
2 | |
Fjara | 0,50
|
22 |
Fuglar - Fjörur og grunnsævi
Nafn | Árstími | Fjöldi | Ár | Hlutfall af íslenskum stofni (%) |
---|---|---|---|---|
Flórgoði (Podiceps auritus) | Vetur | 55
|
2005-2013 | 3,0
|
Margæs (Branta bernicla) | Far | 1431
|
1990–2010 | 5,0
|
Tjaldur (Haematopus ostralegus) | Vetur | 505
|
2017 | 1,0
|
Rauðbrystingur (Calidris canutus) | Far | 18512
|
1990 | 5,0
|
Sendlingur (Calidris maritima) | Vetur | 520
|
1975 | 1,0
|
Selir
Nafn | Lægsti fjöldi (ár) | Hæsti fjöldi (ár) | Hæsta hlutfall af Faxaflóastofni (ár) | Hæsta hlutfall af íslenskum stofni (%) (ár) | Núverandi hlutfall af íslenskum stofni (ár) |
---|---|---|---|---|---|
Landselur (Phoca vitulina) | 104,0 (2003)
|
814,0 (1998)
|
9,5 (2018)
|
1,1 (2016)
|
0,7 (2018)
|
Ógnir
Fjaran er lítið röskuð, fyrir utan veg sem liggur um Botnsvog og þvert yfir Brynjudalsvog. Hafnarmannvirki eru í Hvítanesi, við Hvalstöðina og olíustöðina ofan við Bjarteyjarsand. Stórskipahöfn er á Grundartanga sem er við útjaðar svæðisins og skipaumferð og mengun í tengslum við hana. Víða hefur verið byggt steinsnar frá fjörunni, til dæmis við Laxárvog. Malarnám af sjávarbotni. Vaxandi frístundabyggð og ferðamennska er á svæðinu. Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar, þar með taldar veiðar við laxveiðiár og hjáveiðar, og truflun.
Aðgerðir til verndar
Setja ætti strangari viðmið um fjarlægð bygginga frá ströndu og takmarka frekari röskun á fjörunni en orðið er. Viðhafa eftirlit með iðnaði, þar á meðal með tilliti til efnamengunar og strandrofs. Brýnt er að tryggja vernd sela í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram.
Núverandi vernd
EnginÚtgáfudagsetning
Gefið út: 2018-04-05 Síðast uppfært: 2020-12-03