Svæðið er tilnefnt vegna fugla.

Mörk
Nær yfir norðvesturhluta Vestfjarðakjálkans og liggja mörkin um Skorarheiði sem liggur á milli Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum og Furufjarðar á Ströndum. Auk þess er 1 km verndarjaðar til sjávar við stærstu fuglabjörgin á svæðinu.
Lýsing
Hornstrandafriðland er hálent og fjöll víða sæbrött. Það er einnig mjög vogskorið og eru um 20 nafngreindir firðir og víkur innan friðlandsins. Svæðið hefur verið sjálffriðað fyrir beit síðan um 1950 og víða er mikil gróska blómgróðurs í gömlum túnum og í skjólsælum brekkum. Tófan er einkar áberandi og hefur verið friðuð þarna síðan 1994. Er friðlandið mikilvægasta griðland tegundarinnar hérlendis. Útivist og ferðaþjónusta er stunduð á svæðinu og nýtur friðlandið sívaxandi vinsælda. Byggð lagðist af um miðja síðustu öld en landeigendur dvelja sumarlangt í nokkrum tuga húsa og hafa leyfi til hefðbundinna nytja, þ.e. æðardúntekja, veiði í ám og vötnum og fugla-og eggjatekju sem er nánast engin nú orðið.
Forsendur fyrir vali
Sjö alþjóðlega mikilvægar sjófuglabyggðir eru innan Hornstrandafriðlands: Grænahlíð, Ritur, Kögur, Kjalarárnúpur, Hælavíkurbjarg, Hornbjarg og Smiðjuvíkurbjarg. Þar verpa m.a. forgangstegundirnar fýll, rita, langvía, stuttnefja og álka. Hornstrandir eru mikilvægt fjaðrafellisvæði æðarfugla Auk þess liggur mikilvægur vetrardvalarstaður straumanda að stórum hluta í friðlandinu og þar eru þekkt nokkur fálkaóðul.
Fuglar - Sjófuglabyggðir
Nafn | Árstími | Fjöldi (pör) | Ár | Hlutfall af íslenskum stofni (%) |
---|---|---|---|---|
Fýll (Fulmarus glacialis) | Varp | 136029
|
2007 | 11,0
|
Rita (Rissa tridactyla) | Varp | 262925
|
2007 | 45,0
|
Langvía (Uria aalge) | Varp | 280064
|
2007 | 41,0
|
Stuttnefja (Uria lomvia) | Varp | 186220
|
2007 | 56,0
|
Álka (Alca torda) | Varp | 6463
|
2007 | 2,0
|
Fuglar - Fjörur og grunnsævi
Nafn | Árstími | Fjöldi (pör) | Ár | Hlutfall af íslenskum stofni (%) |
---|---|---|---|---|
Æður (Somateria mollissima) | Fellir | 13000
|
1980 | 2,0
|
Straumönd (Histrionicus histrionicus) | Vetur | 402
|
2003 | 3,0
|
Fálki (Falco rusticolus) | Varp | 7
|
2016 | 1,0
|
Ógnir
Vaxandi umferð gangandi ferðafólks. Siglingar og landtökur frá skemmtiferðaskipum hafa færst í vöxt. Hlunnindanýting.
Aðgerðir til verndar
Hornstrandir voru gerðar að friðlandi árið 1975. Setja þarf sérstakar umgengnisreglur fyrir helstu sjófuglabyggðir og eins tryggja að umsvif í tengslum við núverandi frístundabyggð aukist ekki frá því sem verið hefur. Þá þarf að auka verulega landvörslu og eftirlit með skemmtisiglingum.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Hornstrandir | Friðland |
Útgáfudagsetning
Gefið út: 2018-04-05 Síðast uppfært: 2020-05-26