Náttúruminjaskrá

Hér eru settar fram tillögur að svæðum á framkvæmdaáætlun (B-hluta) náttúruminjaskrár út frá verndun vistgerða, fugla og jarðminja. Samkvæmt 13. gr. laga um náttúruvernd skal umhverfis- og auðlindaráðherra gefa út náttúruminjaskrá eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Náttúruminjaskrá skiptist í þrjá hluta sem auðkenndir eru sem A, B og C-hluti. A-hluti er skrá yfir náttúruminjar og svæði sem hafa verið friðlýstar eða friðaðar. B-hluti er framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár þ.e. skrá yfir þær náttúruminjar sem Alþingi hefur ákveðið að setja í forgang um friðlýsingu eða friðun á næstu fimm árum og C-hluti er skrá yfir náttúruminjar sem ástæða þykir til að friðlýsa eða friða. Í lögunum er lögð áhersla á að byggja upp skipulegt net verndarsvæða til að stuðla að vernd líffræðilegrar fjölbreytni, jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags.

Náttúrufræðistofnun Íslands annast skráningu náttúruminja og hefur umsjón með C-hluta náttúruminjaskrár og gerir tillögur um skráningar í hann í samráði við fagráð náttúruminjaskrár og gerir einnig tillögur um minjar sem ástæða þykir til að setja á framkvæmdaáætlun, þ.e. B-hluta. Að loknu því vali felur ráðherra Umhverfisstofnun að meta nauðsynlegar verndarráðstafanir á svæðum sem til greina kemur að setja á framkvæmdaáætlun og kostnað við þær. Í því ferli koma fram ýmsir aðrir hagsmunir sem geta haft áhrif á endanlegt val svæða en eru sem slíkir ekki grunnþættir í vali á svæðum til að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu vistgerða, vistkerfa eða tegunda. Að lokum mun Umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samráði við ráðgjafanefnd leggja fram þingsályktunartillögu um verndun svæða.

Forsenda skilvirkrar náttúruverndar og sjálfbærrar nýtingar til að viðhalda ákjósanlegri verndarstöðu lífríkis og jarðminja er skipuleg skráning á náttúrunni, flokkun hennar, greining á lykilþáttum og vöktun þeirra. Nú eru í fyrsta skipti valin svæði á B-hluta náttúruminjaskrár samkvæmt nýjum lögum um náttúruvernd. Ákveðið var að leggja áherslu á val á svæðum út frá vistgerðum, fuglategundum og stigin fyrstu skref við val á jarðminjum í net verndarsvæða. Árið 2017 lauk úttekt á náttúru landsins út frá vistgerðum og fuglategundum þar sem skilgreindar voru vistgerðir og jafnframt sett fram endurskoðað mat á stofnstærð fugla og skilgreind alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Á grundvelli þeirrar vinnu voru svæði valin til að ná fram fyrrgreindum verndarmarkmiðum og koma á fót neti verndarsvæða fyrir tilteknar vistgerðir og fugla.

Auk þess sem náttúruminjaskrá og framkvæmd hennar er kjarninn í náttúruvernd á Íslandi er hún einnig tæki til að uppfylla alþjóðlegar skyldur um vernd náttúrunnar. Sérstaklega var tekið mið af viðaukum við Bernarsamninginn þar sem eru tilgreindar þær tegundir og vistgerðir sem aðildarríki samningsins hafa orðið sammála um að eigi að njóta verndar. Eins var byggt á ályktun fastanefndar Bernarsamningsins nr. 6 um sérstakar ráðstafanir til að vernda búsvæði tiltekinna tegunda með stofnun griðasvæða, svo og Samningnum um vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Ekki eru fyrir hendi alþjóðlegir samningar um vernd tiltekinna jarðminja með sama hætti og gildir um lífríki en litið var til þeirra aðferða sem notaðar eru í öðrum löndum og af alþjóðlegum samtökum svo sem ProGEO (The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) og IUCN (International Union for Conservation of Nature).

Tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands að svæðum á B-hluta náttúruminjaskrár

Valin voru í allt 112 svæði í net verndarsvæða fyrir vistgerðir, fuglategundir og jarðminjar. Hverju svæði er lýst í stuttu máli á staðreyndasíðum þar sem fram koma forsendur fyrir vali svæðisins og aðrar grunnupplýsingar. Afmörkun svæða kemur fram á kortasjá. Innan stærri verndarsvæða voru í sumum tilfellum afmörkuð smærri svæði sem draga fram forgangsvistgerðir eða fuglategundir sem eru ekki einkennandi fyrir heildarsvæðið. Ekki er ætlunin að þau standi sem sjálfstæð verndarsvæði. Á það skal bent að við val á svæðum í net verndarsvæða fyrir vistgerðir og fuglategundir var horft á landið í heild og hvaða val á svæðum uppfyllir skilyrði um verndarþörf og ákjósanlega verndarstöðu án tillits til þess hvort ákveðin svæði væru friðlýst eða ekki. Mörg af þeim svæðum sem lagt er til að myndi net verndarsvæða fyrir tiltekna vistgerð eða fuglategund eru því innan svæða sem þegar eru friðlýst eða vernduð með sér lögum. Þegar svo háttar er því eingöngu verið að benda á sérstöðu svæðanna innan stærri heildar sem taka þarf tillit til t.d. í verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði. Mörg svæði skarast einnig við aðrar náttúruminjar sem eru á núgildandi náttúruminjaskrá frá 1996. Þessa skörun má skoða í kortasjá.

Til að þrengja áherslur vegna svæðavals á náttúruminjaskrá voru valdar alls 31 forgangsvistgerð og 51 forgangsfuglategund. Við val á vistgerðum var litið til verndarmats hverrar vistgerðar, metið var mikilvægi vistgerðar fyrir æðplöntutegundir á válista og hvort vistgerðin sé á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. Einnig var metið mikilvægi vistgerðar fyrir fjölbreytni fuglalífs og tegundir fugla sem Ísland ber ábyrgð á. Að lokum voru ógnir sem talið var að gætu haft áhrif á stöðu og þróun vistgerða metnar. Áhersla var á að greina meginógnir hverrar vistgerðar og byggir matið fyrst og fremst á þekkingu og mati starfsmanna Náttúrufræðistofnunar. Fuglategundir voru valdar út frá  þremur meginþáttum: (1) alþjóðlegri ábyrgð Íslands og þá miðað við að um 20% af Evrópustofni reiði sig á landið til varps eða komi hér við á ferðum sínum; (2) hvort tegundin sé á válista og er miðað við uppfærðan válista Náttúrufræðistofnunar sem gefinn var út 2018; og loks (3) hvort um sé að ræða forgangstegund Bernarsamningsins hvað varðar búsvæðavernd.

Við val á jarðminjum var litið til verndarmarkmiða fyrir jarðminjar í náttúruverndarlögum þar sem kemur fram að varðveita eigi skipulega heildarmynd af jarðfræðilegum ferlum og fyrirbærum sem gefa samfellt yfirlit um jarðsögu landsins og að vernda eigi jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Forsenda þess að ná fyrra markmiðinu er að fyrir liggi ítarleg skráning allra helstu jarðminja landsins, en svo er ekki sem stendur. Hér er því fyrst og fremst litið til þess markmiðs að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Við val á jarðminjum voru skoðuð þau svæði sem áður hefur verið lagt til að vernda, ásamt svæðum sem eru á fyrirliggjandi náttúruminjaskrá. Verndargildi þeirra var metið með tilliti til viðeigandi viðmiða og mest áhersla lögð á fágæti, vísindalegt gildi og upprunaleika. Þá voru metnar þær ógnir sem talið er að gætu haft áhrif á gildi þeirra. Að því loknu var svæðunum forgangsraðað með tilliti til verndargildis og ógna.

Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Suðvesturland
Álftanes–Skerjafjörður 31,26     x x  
Elliðavatn 2,12   x      
Elliðavogur–Grafarvogur 1,05       x  
Blikastaðakró–Leiruvogur 5,26       x  
Leirvogsvatn 5,04   x      
Hofsvík 0,73     x    
Hvalfjörður 75,15     x x  
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Vesturland
Akranes 1,04     x    
Blautós 4,58     x x  
Grunnafjörður 13,93       x  
Andakíll 30,85       x  
Ferjubakkaflói–Hólmavað 9,71 x     x  
Litla-Skarð 1,13 x        
Lambeyrarkvísl 0,07   x      
Oddauppsprettur 0,07   x      
Mýrar–Löngufjörur 1302,91 x x x x  
Snæfellsnes 184,07     x x  
Breiðafjörður 2908,81     x x  
Laxárdalsheiði 541,24       x  
Reykhólar 0,53 x        
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Vestfirðir
Látrabjarg  18,16       x  
Patreksfjörður–Djúp 51,48       x  
Hærriöxl 0,00   x      
Dýrafjörður 11,90     x    
Önundarfjörður 6,83 x        
Vigur 7,01       x  
Borgarey 6,68       x  
Reykjanes 2,97 x        
Kaldalón 33,11 x        
Æðey 7,18       x  
Hornstrandafriðland 636,87       x  
Drangajökull 1281,22         x
Goðdalur 0,23 x        
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Norðvesturland
Arnarvatnsheiði 1875,05 x     x  
Guðlaugstungur–Álfgeirstungur 398,20 x     x  
Orravatnsrústir (vistgerðir) 28,76 x x      
Orravatnsrústir (jarðminjar) 72,95         x
Víðidalstunguheiði–Blanda 369,39       x  
Hóp–Vatnsdalur 153,64 x   x x  
Skagi 484,75 x     x  
Láglendi Skagafjarðar 184,71 x x   x  
Drangey 6,61       x  
Málmey 14,61       x  
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Norðausturland
Grímsey 21,99       x  
Hvanndalabjörg 3,82       x  
Hrísey 31,07       x  
Laufás 7,35     x    
Svartá–Suðurá 18,90   x   x  
Skjálfandafljót ofan Aldeyjarfoss 1183,04       x  
Herðubreiðarlindir 163,26   x      
Búrfellshraun 50,54 x        
Mývatn–Laxá 153,23       x  
Leirhnjúkur–Gjástykki 143,69         x
Vestmannsvatn 5,63       x  
Tjörnes (fuglar) 6,24       x  
Tjörnes (jarðminjar) 21,18         x
Öxarfjörður 229,41       x  
Melrakkaslétta 1120,75   x x x  
Skoruvíkurbjarg 7,39       x  
Langanesbjörg 29,51       x  
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Austurland
Viðvíkurbjörg 11,48       x  
Úthérað 421,14 x     x  
Jökuldalsheiði 394,45   x      
Dalatangi 0,54     x    
Vattarnes 0,27     x    
Skrúður 6,16       x  
Fáskrúðsfjörður 0,21     x    
Berufjörður 2,97     x    
Papey 16,66       x  
Álftafjörður 58,02 x     x  
Þvottárskriður–Hvalnesskriður 5,40       x  
Lónsfjörður 28,87       x  
Skarðsfjörður 58,71 x   x x  
Hornafjörður–Kolgríma 183,81 x   x x  
Vatnajökulsþjóðgarður 14128,46 x x   x  
Fjallsá–Fagurhólsmýri 112,24       x  
Ingólfshöfði 3,94       x  
Skeiðarársandur 737,47       x  
Svæði Km2 Land Ferskvatn Fjara Fuglar Jarðminjar
Suðurland
Núpsstaðaskógur 15,65 x        
Steinsmýrarflóð–Grenlækur 78,24 x x      
Mýrdalur 2,87 x        
Lauffellsmýrar 55,81 x        
Hólmsá 9,64   x      
Torfajökull 514,44 x x      
Veiðivötn 227,71       x  
Veiðivötn–Vatnaöldur 1252,62         x
Þjórsárver 384,42 x     x  
Kerlingarfjöll 68,31 x        
Svartárbotnar 0,17   x      
Miklumýrar 35,60 x        
Ytri-Rangá 33,94   x      
Vestmannaeyjar 138,98     x x  
Eystri-Rangá 1,13 x        
Lambhagavatn 0,74 x        
Skúmsstaðavatn 13,75 x x      
Sauðholtsnes 17,70 x        
Eystra-Gíslholtsvatn 1,37 x        
Geysir 3,08         x
Almenningur 4,04 x        
Höfðaflatir 2,38 x        
Laugarvatn–Apavatn–Brúará 43,99 x x   x  
Sogið–Þingvallavatn 97,34       x  
Stokkseyri–Eyrarbakki 19,42     x x  
Ölfusforir–Ölfusárós 55,15 x        
Grændalur 6,14 x x      
Hengladalir 10,07 x x      
Selvogur 5,95     x x  
Krýsuvíkurberg 8,63       x  
Eldey 12,57       x  
Öngulbrjótsnef 1,24     x    
Kalmanstjörn–Garðskagi 12,73     x x  
Vatnsleysuströnd 0,92     x    

 

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |